Íslenski boltinn

Pepsimörkin: „Hann fær líka allan tímann í heiminum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson skoraði tvö glæsileg mörk í 3-2 sigri á FH í gær í stórleik 11. umferðar Pepsi-deildar karla. Sigurmarkið kom beint úr aukaspyrnu en Pepsimökrin fóru nánar yfir fyrra markið.

FH-ingar voru á heimavelli og þeir komust tvisvar yfir í leiknum. FH var búið að vera 2-1 yfir í sextán mínútur þegar Stjörnumenn náðu sókn á 65. mínútu.

Eyjólfur Héðinsson gerði þá mjög vel í að finna Guðjón Baldvinsson á hægri vængnum og Guðjón lagði boltann út í teiginn á Hilmar Árni Halldórsson sem skoraði með frábæru skoti í slána og inn.

Þorvaldur Örlygsson og Reynir Leósson voru sérfræðingar Pepsimarkanna í gær og þeir fóru vel yfir aðdraganda þessa marks.

„Hilmar Árni er þannig í sumar að ef hann fær boltann og skýtur þá er hann inni. Það gengur allt upp hjá honum og hann er frábær að klára þessi færi,“ sagði Þorvaldur Örlygsson og bætti við:

„Hann fær líka allan tímann í heiminum til þess,“ sagði Þorvaldur.

„Varnarmenn horfa alltof mikið á boltann þegar þeir eru að verjast fyrirgjöfum. Það sogast allir að boltanum og það eru allir að kíkja á boltann. Hilmar er klókur og dregur sig til baka en hinir hlaupa allir í átt að markinu. Þú gefur þessum gæja ekki þetta færi,“ sagði Reynir Leósson.

Það má sjá umfjöllun Pepsimarkanna um markið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×