Íslenski boltinn

Nær hún fjórðu tvennunni í röð í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen hefur raðað inn mörkum í Pepsi-deildinni að undanförnu.
Elín Metta Jensen hefur raðað inn mörkum í Pepsi-deildinni að undanförnu. vísir/ernir
Elín Metta Jensen hefur farið á kostum í sigurgöngu Valskvenna í Pepsi-deild kvenna og Valsliðið treystir á hana í stórleiknum á móti Þór/KA í kvöld.

Valur tekur á móti toppliði Þór/KA í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport klukkan 18.00 og kemst á topp deildarinnar með sigri. Valskonur eru einu stigi á eftir norðankonum fyrir leikinn.

Þór/KA komst aftur í toppsætið eftir 2-0 sigur á Breiðabliki á heimavelli eftir að hafa misstigið sig í síðasta útileiknum sínum sem fór fram á Selfossi og endaði með markalausu jafntefli.

Þór/KA liðið getur náð fjögurra stiga forystu með sigri en þá þurfa þær að stoppa heitasta lið Pepsi-deildarinnar.

Valsliðið hefur unnið fimm deildarleiki í röð og Elín Metta Jensen hefur skorað í þeim öllum eða samtals átta mörk. Valskonur hafa skorað 16 mörk í þessum fimm leikjum eða 3,2 mörk að meðaltali í leik.

Elín Metta hefur þar af skorað tvennu í síðustu þremur leikjum Valsliðsins og á því möguleika á fjórðu tvennunni í röð í kvöld.

Með þessum átta mörkum hefur Elín Metta náð efsta sætinu á markakóngstitlinum en hún komst upp fyrir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur í síðustu umferð.



Elín Metta Jensen í síðustu fimm leikjum Valsliðsins:

3-0 sigur á Grindavík

1 mark og 1 fiskað víti

2-0 sigur á HK/Víkingi

1 mark, 1 stoðsending og 1 fiskað víti

3-1 sigur á ÍBV

2 mörk og 1 fiskað víti

4-0 sigur á KR

2 mörk

4-2 sigur á FH

2 mörk og 1 stoðsending

Samtals í þessum fimm leikjum

8 mörk

3 fiskuð víti

2 stoðsendingar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×