Íslenski boltinn

Öruggur sigur Þórs á Akureyri

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sveinn Elías var í byrjunarliði Þórs.
Sveinn Elías var í byrjunarliði Þórs. vísir/Ernir
Þór komst í þriðja sæti Inkasso deildar karla með sigri á Þrótti á Þórsvelli á Akureyri í dag. Þróttur hefur ekki unnið síðustu þrjá leiki sína.

Leikurinn byrjaði vel fyrir gestina frá Reykjavík sem komust yfir eftir fjórtán mínútur. Daði Bergsson sendi boltann fyrir markið, Þórsarar náðu ekki að hreinsa og Viktor Jónsson skilaði boltanum í netið.

Alvaro Montejo jafnaði metin þegar líða fór á fyrri hálfleikinn eftir sendingu frá Óskari Elíasi Óskarssyni.

Snemma í seinni hálfleik kom Jónas Björgvin Sigurbergsson Þórsurum yfir með stórglæsilegu marki beint úr hornspyrnu. Heimamenn bættu svo við þriðja markinu á 67. mínútu, Aron Kristófer Lárusson skoraði það.

Þórsarar fengu vítaspyrnu undir lok venjulegs leiktíma þegar Jónas Björgvin Sigurbergsson féll í teignum. Ármann Pétur Ævarsson fór á punktinn en skaut boltanum í þverslánna. Lokatölur á Þórsvelli 3-1 fyrir heimamenn.

Þróttur átti fá svör við aðgerðum heimamanna í seinni hálfleiknum og var sigur Þórs að lokum nokkuð sanngjarn.

Leikurinn er sá fyrsti í 10. umferð Inkassodeildarinnar, fjórir leikir fara fram á morgun og umferðin klárast svo með leik Fram og Magna á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×