Fótbolti

Martinez: Liðin svipuð að gæðum en þeir hafa unnið HM

Anton Ingi Leifsson skrifar
Martinez er klár fyrir kvöldið.
Martinez er klár fyrir kvöldið. vísir/getty
Roberto Martinez, þjálfari belgíska landsliðsins í knattspyrnu, segir að munurinn milli Belgíu og Brasilíu sem mætast í kvöld sé einfaldlega að Brasilía hafi unnið HM en Belgar ekki.

Belgía hefur aldrei unnið stórmót en hefur unnið alla fjóra leiki sína á HM í Rússlandi í ár. Þeir eru með skemmtilegt lið og eru til alls líklegir.

Þeir mæta Brasilíu í 8-liða úrslitunum í kvöld og flautað verður til leiks klukkan 18.00. Martinez segir liðin áþekk.

„Liðin eru svipuð að gæðum en munurinn er að við höfum ekki unnið HM. Það er mjög einfalt,” sagði Martinez fyrir leikinn í kvöld og var næst aðspurður út í möguleika Belga.

„Það er eitthvað sérstakt við þetta lið. Það er enginn vafi á því. Merkin eru jákvæð og það er mikið hungur á vellinum.”

„Við getum ekki beðið og við erum eins klárir og hægt er. Síðustu tvö ár höfum við verið að vinna að tímapunkti eins og þessum,” sagði Martinez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×