Íslenski boltinn

Guðlaugur: Á meðan tölfræðin segir að það sé möguleiki þá höfum við trúna

Einar Sigurvinsson skrifar
Guðlaugur hér lengst til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Guðlaugur hér lengst til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum.
„Ég er óánægður með að tapa leiknum og ég er óánægður með það hvernig við komum inn í leikinn. Mér fannst við óöruggir og eins og maður segir á slæmri íslensku, ekki fara „all-in“ í leikinn,“ sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur eftir 2-0 tapa sinna manna gegn Stjörnunni í dag.

„Það er erfitt þegar þú gefur Stjörnunni færi á mörkum eins og við gerðum í fyrri hálfleik. Við vorum sofandi þegar boltinn kom inn í boxið hjá okkur og týndum mönnum. Þar tapaðist leikurinn.“

Hann var þó nokkuð ánægður með frammistöðu sinna manna í síðari hálfleik.

„Mér fannst við koma öflugir út í seinni hálfleik og við hefðum átt að gera mark eða mörk, en það tókst ekki.“

Þetta var fjórði leikur Keflavíkur í röð þar sem liðinu tekst ekki að skora mark. Guðlaugur segir þó varnarleikinn vera lykilástæðu þess að liðið tapaði leiknum í dag.

„Við töpum leiknum honum í vörninni. Við erum ekki að sjá bolta og mann í teignum okkar. Þeir gefa mikið fyrir og setja boltann aftur fyrir línuna. Þeir eru góðir í því. Við áttum að vera undirbúnir fyrir það, en mér fannst við ekki leysa það nógu vel.“

Eftir 11 leiki er Keflavík neðsta sæti deildarinnar, án sigur með þrjú stig. Þrátt fyrir það segir Guðlaugur sína menn ekki vera á því að leggja árar í bát.

„Það gæti ekki nokkur maður verið ánægður með þetta en á meðan tölfræðin segir okkur að það sé möguleiki þá höfum við trúna. Mér fannst við sýna það í seinni hálfleik að við höfum trú á því sem við erum að gera. Við gerðum það ágætlega, þó að við höfum ekki fengið neitt fyrir það í dag.“

„Þú getur ekki horft til baka í þessari íþrótt, þú verður alltaf að horfa fram á veginn,“ sagði Guðlaugur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×