Innlent

Segir að það sé villandi að tala um nefndarlaun sem vinnusvik

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík segir að það sé heilbrigt og hollt að launamál ráðamanna séu sífellt til skoðunar. Það sé eðlilegt að nýir borgarfulltrúar fái tækifæri til þess að fara vel yfir málin. „Það er enginn bragur á því að það standi einhverjar deilur um þessi mál.“ Þetta segir Dagur í útvarpsviðtali í Bítinu í morgun þar sem hann ræddi um nefndarlaun.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sósíalistaflokks Íslands, lagði á fyrsta borgarstjórnarfundi nýrrar borgarstjórnar fram tillögu um afnám þóknunar fyrir nefndarsetu. Tillögunni var í kjölfarið vísað til borgarráðs. Það var samþykkt um níuleytið í gærkvöldi eftir fjörugan fund sem dróst á langinn.

Um fyrsta borgarstjórnarfundinn segir Dagur: „Það er ennþá kosningafiðringur í fólki kannski. Það voru margir flokkar sem náðu inn. Fólk er svona aðeins að hnykla vöðvana, sem var ágætt.“

Sjá nánar: Allt leikur á reiðiskjálfi á fyrsta borgarstjórnarfundi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Dóra Björt Guðjónsdóttir, forseti borgarstjórnar á fjörugum fundi borgarstjórnar í gær.
Aðspurður hvort ekki væri hægt að vinna að nefndarstörfunum á vinnutíma segir Dagur: „Ég held að enginn þessara bæjarstjóra vinni fjörutíutíma vinnuviku, það er langt því frá. Ef þú vinnur svona vinnu á dagvinnutíma þá er önnur vinna sem bíður eftir þér og allt þetta fólk er að vinna bæði kvöld og helgar. Það er mjög villandi að tala um þetta eins og einhvers konar vinnusvik.“

Spurður út í álit sitt á hugmynd Sönnu um að afnema þóknun fyrir nefndarsetu segir Dagur að það sé í rauninni meginreglan en að í einstökum tilvikum fái nefndarmenn álagsgreiðslur ef viðkomandi er formaður í stórri nefnd. „Hugsunin er sú að þeir sem taka að sér meiri ábyrgð og eru þá á meira og minna stöðugri vakt, gagnvart fjölmiðlum, gagnvart tilsvörum og í sínum verkefnum og vinna miklu meira en venjulega vinnu að þeir njóti þess að einhverju leyti í launum.“

Dagur segir að það sé ekki rétt að hann hljóti þrjú hundruð þúsund krónur fyrir að sitja nefndarfund: 

„Nei, nei, það er reyndar útúrsnúningur. Slökkviliðið er þannig saman sett að það eru bæjarstjórarnir og borgarstjórinn sem sitja þar í stjórn. Við erum jafnframt formenn neyðarstjórna viðkomandi sveitarfélaga og ég er í formennsku fyrir Almannavarnanefnd. Þetta er hugsað þannig að þessi innsýn sem þessi störf veita skipta miklu máli þegar til kemur vegna þess að bæjarstjórarnir gegna hlutverki við að ræsa út í raun allt sem þarf að ræsa út í almannaáfalli. Fyrir þetta er greitt sérstaklega. Slökkviliðið er sameiginlegt fyrirtæki sveitarfélaganna þannig að það er um hundrað þúsund krónur sem stjórnarmenn fá og stjórnarformaður fær tvöfalt það á mánuði. Síðan var einhver, reyndar ranglega, að reikna það yfir einhvers konar tímakaup fyrir stjórnarfundi en það er nú mjög villandi.“

Dagur segir að bæjarstjórar og borgarstjóri séu líka í öðrum nefndum eins og til að mynda stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en að þeir fái ekki greitt fyrir þá vinnu. Hann segir að sá tími sem fari í að sitja sjálfa stjórnarfundina sé í raun minnstur. Það sé mikil vinna á milli fundanna sjálfra.

Hér efst í fréttinni er hægt að hlusta á viðtalið við Dag í heild sinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×