Innlent

Nálgast að vera með betri vatnsárum Landsvirkjunar

Kristján Már Unnarsson skrifar
Stöðvarstjóri Þjórsársvæðis, Georg Þór Pálsson, við Þórisvatn í gær.
Stöðvarstjóri Þjórsársvæðis, Georg Þór Pálsson, við Þórisvatn í gær. Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Það eru ekki allir sem bölva rigningunni. Stöðvarstjóri Landsvirkjunar á Þjórsársvæði er kátur að sjá vatnið streyma inn í virkjunarlónin og sér fram á þetta verði með betri vatnsárum. Rætt var við Georg Þór Pálsson, stöðvarstjóra Þjórsársvæðis, í fréttum Stöðvar 2.

Útfall Þórisvatns var áður við norðanvert vatnið út í Köldukvísl en eftir að stíflað var við Þórisós árið 1972 varð þetta stærsta stöðuvatn landsins. Þórisvatn er jafnframt mikilvægasta vatnsforðabúr Landsvirkjunar og fæðir sex virkjanir fyrir neðan.

 

Afrennsli Þórisvatns er nú stjórnað um lokumannvirki, sem beinir vatninu um skurð til Vatnsfellsvirkjunar.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Afrennsli þess er nú til suðurs um Þórisvatnsloku en með henni er vatnsrennsli stjórnað til virkjananna. 

Yfirborð Þórisvatns getur sveiflast um allt að átján metra en undanfarnar vikur hefur það stigið hratt. 

„Við erum allavega mjög kát þegar það bætist í lónið og það hefur verið núna, frá því í annarri viku maí, mjög góð stigning í lóninu, þannig að miðað við árstíma erum við á mjög góðum stað,“ segir Georg. 

Þannig nemur hækkun vatnsyfirborðs sex metrum á síðustu tveimur mánuðum.

Séð yfir Þórisvatn í gær. Hágöngur í baksýn.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
Yfirborðið er þó ekki búið að ná stöðunni á sama tíma í fyrra en síðasta vatnsár var óvenju gott, að sögn Georgs. 

„En þetta fer að nálgast að vera með betri vatnsárum.“ 

Stöðvarstjórinn reiknar þó með að úr þessu hægji á hækkuninni enda sé snjóbráðin að mestu búin. Mælar Landsvirkjunar sýna að núna vantar aðeins um tvo og hálfan metra upp á mestu mögulegu hæð en Þórisvatn fer á yfirfall í 579 metra hæð yfir sjávarmáli og telst þá fullt.

Þórisvatnsloka. Yfirborð Þórisvatns fyrir innan vantar núna aðeins um tvo og hálfan metra til að komast í efstu hæð.Stöð 2/Arnar Halldórsson.
„Vonandi fyllist það núna í lok ágúst eða byrjun september. Við verðum aðeins að sjá til hverju fram vindur.“ 

-Á þetta við um öll lón Landsvirkjunar? 

„Já, ég held að vatnsstaðan sé almennt mjög góð. Veðrið hefur verið okkur hagstætt, þó að allir landsmenn hafi kannski ekki verið ánægðir með það,“ segir stöðvarstjóri Landsvirkjunar á Þjórsársvæði. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×