Fótbolti

Ari Freyr: „Þrjú stig í næsta leik, svo einfalt er það“

Ari Freyr og strákarnir allir voru svekktir í leikslok
Ari Freyr og strákarnir allir voru svekktir í leikslok Vísir/getty
Ari Freyr Skúlason, sem kom inn sem varamaður í seinni hálfleik í tapi Íslands fyrir Nígeríu, var nokkuð brattur eftir leikinn.

„Við töpuðum. Þetta er ekki búið, svo einfalt er það. Við eigum einn leik eftir og það eru ennþá möguleikar þótt þeir séu skrítnir,“ sagði Ari Freyr í viðtali við Kolbein Tuma Daðason í Volgograd í leikslok.

„Maður reynir bara að gera sitt besta, berjast og hvetja strákana áfram. Við fáum gullið tækifæri í vítaspyrnunni og það hefði kannski kveikt aðeins í okkur en svona er fótboltinn.“

Það er augljóst svekkelsi með úrslit leiksins en hvað er það sem leikmenn eru helst svekktir með?

„Ég held menn séu mest svekktir með seinni hálfleikinn. Þetta var þannig leikur að við vorum þokkalega solid í fyrri hálfleik, hættulegir í föstum leikatriðum og fáum inn á milli góða punkta en seinni hálfleikurinn var ekki líkur okkur.“

Úrslitin þýða að Ísland þarf að sigra Króatíu á þriðjudag og treysta á að Argentína vinni Nígeríu með minni mun, þá fer Ísland áfram í 16-liða úrslit.

„Þrjú stig í næsta leik, svo einfalt er það. Við ætlum að reyna að komast eins langt og við getum, þannig er hugsunarhátturinn í liðinu þó menn hafi verið aðeins svekktir eftir leikinn,“ sagði Ari Freyr Skúlason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×