Fótbolti

Ísland skoraði ekki í fyrsta sinn á stórmóti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands gegn Argentínu en var ekki á skotskónum í dag, frekar en aðrir í íslenska liðinu.
Alfreð Finnbogason skoraði mark Íslands gegn Argentínu en var ekki á skotskónum í dag, frekar en aðrir í íslenska liðinu. Vísir/Getty
2-0 tap fyrir Nígeríu í dag reyndist sögulegt fyrir íslenska liðið. Í fyrsta sinn spilaði Ísland leik á stórmóti í fótbolta án þess að skora og þetta var enn fremur fyrsta tap Íslands í riðlakeppni á stórmóti.

Það skal þó hafa í hug að Ísland er aðeins á sínu öðru stórmóti. En strákarnir okkar fóru í gegnum sinn riðil á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum án þess að tapa og tapið gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum í þeirri keppni var þar til í dag eina tap Íslands á stórmóti.

Leikurinn í dag var sá sjöundi hjá íslenska karlalandsliðinu á stórmóti en í öllum hinum sex hafði Íslandi tekist að skora mark. Það tókst ekki í dag, þrátt fyrir að Ísland hafi fengið vítaspyrnu en Gylfi Þór Sigurðsson nýtti hana ekki.

Nígería var einnig að vinna leik í lokakeppni HM með minnst tveggja marka mun í 24 ár. Nígeríumenn unnu Búlgaríu, 3-0, og Grikkland, 2-0, á HM í Bandraíkjunum árið 1994.

Strákarnir okkar fá tækifæri til að bæta fyrir frammistöðuna í dag með sigri á Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudag. Sigur gæti dugað Íslandi til að komast áfram í 16-liða úrslitin, en aðeins ef úrslitin í leik Argentínu og Nígeríu á sama tíma verða okkar mönnum hagstæð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×