Fótbolti

Fær að heyra það frá miklu fleirum en Maradona: „Hann veit ekki hvað hann er að gera“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jorge Sampaoli.
Jorge Sampaoli. Vísir/Getty
Jorge Sampaoli, þjálfari Argentínu, var skák á mát á móti íslenska landsliðinu á HM í fótbolta í Rússlandi og ekki batnaði staðan hans eftir stórtap í öðrum leiknum á móti Króatíu.

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona er ekki sá eini sem hefur verið drulla yfir Jorge Sampaoli síðustu daga enda hefur ráðaleysi argentínska þjálfarans kallað á mikla gagnrýni víðsvegar að.

Einn af þeim sem hefur ekki sparað stóru orðin er Pablo Zabaleta sem á sínum tíma lék 58 landsleiki fyrir Argentínu og er einn þekktasti knattspyrnumaður argentínsku þjóðarinnar eftir tíu ár í enska boltanum.





Pablo Zabaleta var fengin til að tjá sig um argentínska landsliðið í útvarpsviðtali og þar leynist ekki lítið álit hans á argentínska landsliðsþjálfaranum.

„Jorge Sampaoli gerði mistök þegar hann valdi hópinn. Hann klikkaði líka á uppstillingunni á móti Íslandi þegar hann spilaði með fjóra menn í vörn og tvo varnartengiliði að auki á móti liði sem var allan tímann í vörn,“ sagði Pablo Zabaleta í útvarpsviðtali hjá BBC Radio 5 Live.

„Það vantar að búa eitthvað til í kringum Messi. Liðið er líka alltof lengi fram völlinn þegar menn vinna boltann. Í leiknum á móti Króatíu þá var komin þriggja manna vörn, nýir leikmenn og nýtt leikskipulag. Knattspyrnustjórinn veit ekkert hvað hann er að gera,“ sagði Zabaleta.

„Við eigum samt ennþá möguleika. Nígería er með öflugt lið en nú þurfa leikmenn að mæta á svæðið. Miðað við gæðin sem við erum með framarlega á vellinum þá er hægt að búast við því að við skorum mörk,“ sagði Zabaleta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×