Skoðun

Fjallkall

Haukur Örn Birgisson skrifar
Líkt og svo margir aðrir tók ég þátt í hátíðarhöldum á 17. júní. Þrátt fyrir rigninguna var skemmtunin fín og augljóslega mikið lagt í viðburðina. Einn af fastapunktunum í dagskrá þjóðhátíðarinnar ár hvert er framkoma Fjallkonunnar en hún hefur verið á sínum stað frá árinu 1944, þegar dótturdóttur Hannesar Hafstein hlotnaðist heiðurinn.

Í ár voru, aldrei þessu vant, tvær Fjallkonur í Reykjavík. Það vakti athygli mína að önnur þeirra var alls ekki kona, heldur þvert á móti karlmaður – dragdrottning. Þótti þetta vera til marks um að samfélagið sé að verða opnara fyrir hinsegin menningu. Ég verð að fá að gera smá athugasemd við þetta.

Fjallkonan er þjóðartákn, kvengervingur Íslands. Það er því alls ekki fráleitt að Fjallkonan sé leikin af konu. Í fyrra var Fjallkonan í Hafnarfirði transkona og var það hið besta mál. Tímarnir hafa breyst og fullt tilefni er til þess að fagna fjölbreytileikanum. Ég velti samt fyrir mér hversu illa við erum orðin flækt í rétttrúnaði þegar fenginn er gaur til þess að vera kvengervingur Íslands. Eflaust besti gaur, en engu að síður gaur!

Konur hafa, áratugum saman, barist fyrir því að hafa sömu möguleika og karlar á vinnumarkaði. Til þessa hefur verið til eitt starf í „opinbera geiranum“ sem konurnar hafa getað gengið öruggar að. Jafnréttisbaráttan hlýtur hins vegar að vera komin í öfugan hring þegar karlmaður í kvenmannsfötum er ráðinn í starfið. Af hverju mega konur ekki bara fá að vera konur? Líka Fjallkonur. Sérstaklega á ári #metoo byltingarinnar. Þurfum við karlmennirnir virkilega að hirða af þeim öll störf?




Skoðun

Skoðun

Al­einn í heiminum?

Lukka Sigurðardóttir,Katrín Harðardóttir ,Margrét Kristín Blöndal skrifar

Sjá meira


×