Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍBV - Grindavík 3-0 | Öruggur sigur Eyjamanna gegn slökum Grindvíkingum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristján og lærisveinar hans unnu öruggan sigur í dag.
Kristján og lærisveinar hans unnu öruggan sigur í dag. vísir/eyþór
ÍBV vann öruggan sigur á Grindavík í Eyjum í dag þegar liðin mættust í 11.umferð Pepsi-deildarinnar. Lokatölur urðu 3-0 og lyfta Eyjamenn sér úr fallsæti með sigrinum en Grindvíkingar sitja áfram í 4.sæti.

Eyjamenn gáfu tóninn strax í upphafi. Þeir pressuðu gestina vel og voru mun grimmari á öllum sviðum leiksins. Þeir sköpuðu sér nokkur hálffæri og voru þeir Kaj Leo í Bartalsstovu og Shahab Zahedi þeirra hættulegastir.

Á 34.mínútu kom Gunnar Heiðar Þorvaldsson heimamönnum síðan yfir með marki úr vítateignum eftir fínan undirbúning frá Kaj Leo. Grindvíkingar voru á þessum tímapunkti búnir að eiga eina marktilraun að marki heimamanna og voru ekki sjálfum sér líkir.

Strax í upphafi seinni hálfleiks kom Shahab Zahedi heimamönnum svo í 2-0 með laglegu marki þar sem hann fór illa með Björn Berg Bryde í vörn gestanna. Shahab kom ÍBV síðan í 3-0 á 66.mínútu og þá var ljóst hvar sigurinn myndi enda.

Eyjamenn fengu færi til að bæta við undir lokin og áttu meðal annars tvo skalla í þverslána en allt kom fyrir ekki. Lokatölur 3-0 og leikmenn ÍBV fögnuðu vel í leikslok.

Af hverju vann ÍBV?

Þeir voru einfaldlega betri en Grindvíkingar á öllum sviðum knattspyrnunnar í dag og virtust vera búnir að vinna heimavinnuna sína afskaplega vel fyrir leikinn. Pressa Eyjamanna kom gestunum í vandræði og sóknarlega var himinn og haf á milli liðanna.

Lykilmenn Grindavíkur eins og Björn Berg Bryde og Aron Jóhannsson voru ólíkir sjálfum sér í dag en ljóst var að liðið saknaði Rodrigo Mateo og Gunnars Þorsteinssonar á miðjunni, en þeir voru báðir fjarri góðu gamni.

ÍBV getur vel við unað og sigurinn lyfir þeim upp úr fallsæti Pepsi-deildarinnar.

Þessir stóðu upp úr:

Kaj Leo i Bartalsstovu var frábær í dag og stríddi Grindvíkingum hvað eftir annað með leikni sinni og hraða. Hann lagði upp fyrsta markið fyrir Gunnar Heiðar og var síógnandi allan leikinn. Shahab Zahedi var sömuleiðis öflugur sem og Gunnar Heiðar. Þá stigu þeir Sindri Snær Magnússon og Priesley Griffiths vart feilspor á miðjunni. Í raun átti enginn Eyjamaður slakan leik í dag.

Sóknarþríeykið Kaj Leo, Shahab og Gunnar Heiðar náði vel saman og haldi þeir því áfram eru Eyjamenn líklegir til að skora gegn hvaða vörn í deildinni sem er.

Hvað gekk illa?

Það gekk í raun allt illa hjá Grindavík. Yfirleitt er erfitt að brjóta lið þeirra á bak aftur en Eyjamenn gerðu það hvað eftir annað í dag. Gestirnir virtust engan veginn tilbúnir í leikinn í dag og vilja eflaust gleyma honum sem fyrst.

Hvað gerist næst?

Bæði liðin eiga leik á laugardaginn. Grindvíkingar eiga þá útileik gegn FH í Krikanum en Eyjamenn taka á móti Breiðabliki á Hásteinsvelli.

Kristján: Mönnum leið vel inni á vellinum í dag
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.vísir/eyþór
„Ég er mjög ánægður með hvernig menn tóku því að við breyttum aðeins áherslunum í okkar leik. Það var ljóst í upphafi að leikmönnum leið mjög vel inni á vellinum, við héldum boltanum vel og sköpuðum okkur færi og hálffæri,“ sagði hæstánægður þjálfari ÍBV, Kristján Guðmundsson, eftir sigurinn á Grindavík í dag.

ÍBV var mun sterkari aðilinn á Hásteinsvelli í dag og ógnuðu vörn Grindvíkinga trekk í trekk.

„Þegar við náum að láta þá spila saman, Gunnar Heiðar og Shahab, þá gengur okkur oftast vel. Nú vorum við með fínan stuðning úti á kantinum í Kaj Leo og Jonathan Franks sömuleiðis og þá líður okkur mjög vel að vera með boltann. Við náðum að svæfa þá aðeins og pressan okkar var fín líka. Við náðum að stöðva þeirra sóknarspil mjög vel.“

„Pressan var einn hluti af því að hleypa þeim ekki í spilið sitt, að spila boltanum upp miðjuna sem þeir eru mjög góðir í. Það tókst vel að hægja á því,“ bætti Kristján við.

Eyjamenn skiptu yfir í 4-4-2 leikkerfið fyrir leikinn í dag og virtist það koma Grindvíkingum aðeins á óvart.

„Við höfum verið að spila 5-3-2 að mestu leyti en þetta er þriðji leikurinn sem við spilum í þessu kerfi. Þetta var bæði hugsað út frá því á móti hverjum við vorum að spila og svo líka til að létta á liðinu. Við höfum verið í stífum varnarleik nálægt markinu og við vildum færa liðið framar. Það gekk vel og okkur leið vel með boltann.“

Stigin þrjú sem ÍBV náði í núna í dag gera það að verkum að þeir lyfta sér úr fallsætinu og upp í 7.sæti deildarinnar. Staðan gæti þó breyst þegar umferðin klárast í kvöld og á morgun.

„Það er svo stutt á milli og um að gera að dragast ekki aftur úr heldur vera í þessum slag inni í miðri deild og sjá hvað við náum í af stigum. Við erum að fara í Evrópukeppni núna og það er því nóg að gera. Við megum ekki gleyma okkur þó við höfum spilað vel í dag. Þessi leikur var áskorun að lyfta okkur aðeins upp í þessu móti,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari ÍBV.

Óli Stefán: Allt liðið var vont í dag
Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur sagði lið hans hafa verið vont í dag.Vísir/Andri Marínó
„Ég held að það sé alveg klárt að þetta var versta frammistaða okkar í sumar. Við vorum vondir á allan hátt, kraftlitlir og náðum varla að klukka góða Eyjamenn. Þetta var mjög vondur dagur í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir 3-0 tap gegn ÍBV í Eyjum í dag.

Eyjamenn hafa yfirleitt spilað með þrjá miðverði í sumar en breyttu í dag yfir í 4-4-2 leikkerfið með fínni pressu sem virtist koma Grindvíkingum pínulítið í opna skjöldu.

„Við vorum búnir að tala um að það gæti orðið og þá með tvo framherja eins og þeir gera í hinu kerfinu. Það sem þeir gerðu vel að þegar þeir unnu vel þá keyrðu þeir í svæðið fyrir aftan okkur og við vorum búnir að fara vel í það í vikunni að fara ekki með boltann í svæðin þar sem þeir eru þéttir.“

„En við teiknuðum það svo sannarlega upp fyrir þá í dag og hvað eftir annað fengu þeir boltann á stórhættulegum svæðum og kláruðu þrjú mörk upp úr því,“ bætti Óli Stefán við.

Rodrigo Gomes Mateo var í leikbanni í dag og fyrirliðinn Gunnar Þorsteinsson meiddur. Það var augljóst að Grindvíkingar söknuðu þeirra á miðsvæðinu.

„Það særði jafnvægið í liðinu að annar hvor þeirra var ekki með og svo er Brynjar Ásgeir meiddur líka. Við höfum verið að tala um að hópurinn sé breiðari en í fyrra og þeir sem koma inn eiga að taka við keflinu og spila sig inn í liðið. Það er samt ekkert við þá að sakast í dag því allt liðið var vont í dag,“ sagði Óli Stefán að lokum.

Sindri Snær: Ætlum að taka meðbyrinn með í næstu leiki
Sindri Snær átti fínan leik í dag.vísir/ernir
Sindri Snær Magnússon átti góðan leik á miðju ÍBV í dag þegar þeir lögðu Grindavík örugglega í Eyjum.

„Þetta var flottur leikur, 3-0 sigur og þrjú stig sem er frábært. Við ákváðum að setja pressu á þá sem gekk fullkomlega í dag og mér fannst þeir ekki eiga möguleika gegn okkur frá upphafi leiks. Þetta var frábær leikur og þrjú stig sem við vildum,“ sagði Sindri við Vísi eftir leikinn í dag.

„Gunnar Heiðar og Shahab náðu vel saman sem og Kaj Leo og Jonathan Franks. Við vorum að sækja á mörgum mönnum og þeir réðu ekkert við okkur,“ bætti Sindri við en Grindvíkingar sáu aldrei til sólar í leiknum.

Það er nóg framundan hjá Eyjamönnum, heimaleikur gegn Blikum um næstu helgi og svo evrópuleikir gegn Sarpsborg.

„Við slípuðum okkur vel saman á Orkumótinu sem var að klárast og tókum það með okkur í leikinn í dag. Við eigum heimaleik í deildinni næstu helgi og svo Evrópukeppni í kjölfarið. Það eru risaverkefni framundan og við ætlum að taka meðbyrinn með okkur í þá leiki,“ sagði Sindri en leikmenn ÍBV voru duglegir í dómgæslunni á Orkumótinu sem fór fram í Eyjum fyrir og um helgina.

„Það er fátt skemmtilegra en að taka langan dag að dæma hjá þessum strákum og snúa hlutverkunum aðeins við. Ég fæ að heyra það hjá strákunum og svo skemmtilegt að sjá foreldrana alveg missa sig,“ sagði Sindri Snær sáttur í leikslok.


Tengdar fréttir

Óli Stefán: Allt liðið var vont í dag

"Ég held að það sé alveg klárt að þetta var versta frammistaða okkar í sumar. Við vorum vondir á allan hátt, kraftlitlir og náðum varla að klukka góða Eyjamenn. Þetta var mjög vondur dagur í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir 3-0 tap gegn ÍBV í Eyjum í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira