Innlent

Gæti gránað í fjöll á norðaustanverðu landinu síðar í vikunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Íslendingar hafa séð betra veður í miðjum júní.
Íslendingar hafa séð betra veður í miðjum júní. Vedur.is

Hún er ekki hlýleg veðurspáin fyrir vikuna en verstu spár gera ráð fyrir að það gráni í fjöllum á norðaustanverðu landinu aðfaranótt föstudags, sem er 15. júní.

Daníel Þorláksson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir hitastigið bjóða upp á slyddu eða snjókomu aðfaranótt föstudags en það sem gæti bjargað Norðlendingum frá því að horfa upp á gráa fjallstoppa á föstudagsmorgun er að lítil úrkoma sé í spám veðurstofu Íslands, en þó einhver.

„Það er ekki tímabært að spá slyddu,“ segir Daníel en bætir við að spálíkönin séu að hóta slyddu líkt og sakir standa.

Á morgun má gera ráð fyrir hægri suðvestanátt og skúrum en þurrt að kalla suðaustan- og austantil. Norðan 3-8 og þykknar upp um norðaustanvert landið annað kvöld og fer einnig að rigna austast. Hiti 6 til 14 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-13 m/s og súld eða rigning um landið norðan- og austanvert, en hægari norðlæg átt og úrkomuminna annars staðar. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á föstudag:
Norðlæg átt, víða 3-8 m/s. Skýjað en þurrt að kalla norðanlands, en austlægari og dálítil væta um sunnanvert landið. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast syðst.

Á laugardag:
Hæg suðlæg eða breytilegar átt og væta í flestum landshlutum, en heldur hlýnandi veður.

Á sunnudag (lýðveldisdagurinn):
Suðaustanátt og rigning með köflum sunnan- og vestanlands en skýjað og þurrt norðaustantil. Hiti 8 til 13 stig.

Á mánudag:
Norðlæg eða breytileg átt og rigning eða súld með köflum í flestum landshlutum. Kólnar heldur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.