Fótbolti

Kalinic rekinn heim til Króatíu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
HM ævintýri Kalinic er búið
HM ævintýri Kalinic er búið Vísir/getty
Nikola Kalinic hefur verið vikið úr HM hóp Króata eftir meiðslavandræði og ósætti við landsliðsþjálfarann Zlatko Dalic. Þetta staðfestu Króatar á fréttamannafundi í dag.

Dalic ætlaði að setja Kalinic inn á undir lok leiks Króatíu og Nígeríu á laugardagskvöld en Kalinic neitaði að koma inn á. Hann sagðist vera með bakverki og gæti því ekki spilað.

Kalinic var látinn pakka niður í morgun og sendur heim til Króatíu.

„Nikola hitaði upp á móti Nígeríu en þegar hann þurfti að koma inn í seinni hálfleik sagðist hann ekki vera tilbúinn til þess. Hann sagðist einnig finna til gegn Brasilíu [í vináttulandsleik í byrjun mánaðar] og á æfingu í gær. Ég þarf leikmenn sem eru heilir svo ég sendi hann heim,“ sagði Dalic.

Þetta er víst ekki í fyrsta skipti sem ósætti kemur upp á milli þeirra Kalinic og Dalic og hefur verið mikið um valdabaráttu innan króatíska hópsins ef marka má fréttaflutning í króatískum miðlum. Þjálfarateymið sagði þó á fréttamannafundinum í dag að andrúmsloftið væri frábært innan hópsins.

Fjölmiðlar í Króatíu segja þetta uppátæki Kalinic líklega hafa gert út um landsliðsferil hans, enginn landsliðsþjálfari muni velja hann í landsliðið eftir þetta.

Króatía leikur í riðli með Íslandi á HM. Liðin mætast í lokaumferð riðlakeppninnar þann 26. júní í Rostov.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×