Íslenski boltinn

„Þú þarft að vera heppinn eða þekkja einhvern“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson, aðalmarkvörður íslenska fótboltalandsliðsins, var heiðursgestur í Pepsi mörkunum í gær og þar tjáði hann sig meðal annars um möguleika íslenskra markvarða í dag að komast út í atvinnumennsku.

Hannes fór út 2013 en hann var þá orðinn 29 ára gamall eða frekar gamall að markverði að vera. Gunnar Jarl Jónsson spurði hann um hversu erfitt það væri fyrir íslenska markmenn í dag að komast úr Pepsi-deildinni og í atvinnumennsku.

„Það er mjög erfitt. Ég hugsa að það hafi verið enn erfiðara áður en Ísland fór að gera þessa góðu hluti. Nú erum við orðnir fimm sem erum að spila úti,“ sagði Hannes og bætti við:

„Þetta er ekki eins erfitt og það var. Ég hugsa að þetta sé ekkert ósvipað og með þjálfara. Þú þarft að vera heppinn eða þekkja einhvern,“ sagði Hannes.

„Ég var búinn að spila í tvö ár með landsliðinu og fara í umspil á móti Króatíu. Ég stóð mig vel en rétt slefaði út og fékk samning hjá Sandnes Ulf sem var langminnsta liðið í norsku úrvalsdeildinni,“ sagði Hannes.

„Það dælast inn nýir tvítugir markmenn á markaðinn í öllum þessum löndum. Ef lið ætlar að koma og sækja sér íslenskan markmann þá þurfa menn að hafa eitthvað extra eða hitta á gluggaopnun,“ sagði Hannes.

Hannes leggur áherslu á að íslenskir markmenn beri virðingu fyrir öllum tilboðum sem koma.

„Menn þurfa að bera virðingu fyrir þeim opnunum sem koma. Segjum að það sé 1. deild í Skandinavíu. Ef það er lið sem gæti gert eitthvað í framtíðinni, ekki ýta því til hliðar bara útaf því að þetta sé 1. deildin,“ ráðleggur Hannes.

Það má sjá allt svar Hannesar í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×