Innlent

Æsileg eftirför endaði í Hvalfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eftirförinni lauk í Hvalfirði.
Eftirförinni lauk í Hvalfirði. Vísir/jói k.
Lögreglan þurfti að taka á honum stóra sínum í gærkvöldi þegar ökumaður, sem hún vildi ná tali af á Miklubraut, sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Í stað þess að stöðva er ökumaðurinn sagður hafa stigið þétt á bensíngjöfina og hófst þá mikil eftirför. Í skeyti lögreglunnar er aksturinn rakinn. Fyrst var Ártúnsbrekka ekin, því næst Vesturlandsvegur að Bauhaus þar sem ökumaðurinn er sagður hafa snúið við.

Því næst var ferðinni heitið aftur niður Ártúnsbrekku, Miklubraut umhverfis Kringluna þaðan sem haldið var að Háaleitisbraut og aftur austur Vesturlandsveg. Brunað var í gegnum Mosfellsbæ, upp Þingvallaveg og í Kjós áður en aksturinn var svo loks stöðvaður í Hvalfirði við Meðalfellsveg.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og var hraði hans oft um 170 -190 km/klst að sögn lögreglu. Ökumaðurinn verður einnig kærður fyrir önnur brot, til að mynda að fara ekki að fyrirmælum lögreglu, akstur á móti umferð og fleira. Ökumaðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×