Lífið

Finnst fínt að rétta kyndilinn til annara

Benedikt Bóas skrifar
Valli var hress og kátur í veislunni í gær. Eðlilega. Það er alltaf gaman að eiga afmæli, hvað þá stórafmæli.
Valli var hress og kátur í veislunni í gær. Eðlilega. Það er alltaf gaman að eiga afmæli, hvað þá stórafmæli. Vísir/Sigtryggur
„Næstu 50 árin verða ekki síður fjölbreytt og jafnvel fjölbreyttari þó hlutverk manns breytist. Trúlega fer ég meira að leiðbeina en að gera – eins fjölskyldulega séð, en ég verð afi í desember,“ segir Valgeir Magnússon, sem landsmenn þekkja undir nafninu Valli Sport eða Valli Pipar.

Valli fagnaði 50 ára afmæli sínu á föstudaginn fyrir viku og bauð til sín sínu nánasta fólki og fjölskyldu. Alls mættu 50 manns til hans. En ekki hvað. Í gær var svo slegið upp veislu á auglýsingastofunni Pipar/TBWA þar sem Valli er stjórnarformaður. Þar voru vinnufélagar hans mættir en þeir eru um 100 þar sem Valli er með puttana í Ghostlamp og Nordic Angling auk Pipars/TBWA.

„Venjulegur dagur hljómar þannig að ég vakna snemma og hleypi hundunum út og passa að hvolpurinn sé ekki búinn að gera þarfir sínar innandyra. Svo fer ég yfir helstu fréttir og er yfirleitt mættur í vinnu um átta.“

„Þá liggja fyrir verkefni dagsins, hvort sem það eru fundir, að skrifa texta í auglýsingu, sjá um hlutafjárútboð, semja við skrifstofu í Dúbaí eða kenna einhverjum í Los Angeles hvernig á að nota áhrifavalda í auglýsingum.“

„Ég lifi fjölbreyttu lífi. Ég get fengið símtal frá tónlistarmanni sem vantar texta við lag og þá sest ég inn á kaffihús og skrifa texta, svo er ég að klára mína þriðju skáldsögu. Ef ég þarf að ná jarðtengingu fer ég á kajak og sigli seglskútu eða smíða eitthvað. Fer jafnvel til Hríseyjar þar sem við eigum hús og erum að koma af stað eggjabúi.“

Valli hætti sem framkvæmdastjóri hjá Pipar fyrir um 18 mánuðum og rétti Guð- mundi Pálssyni kyndilinn. „Ég held að það sé mikilvægt að geta fundið fólk sem getur gert hluti betur en maður sjálfur. Hæfileikarnir til að fara af stað eru ekkert endilega þeir hæfileikar sem þarf þegar það þarf að halda sjó. Ég held að ég sé góður að rétta kyndilinn áfram og breytast í leiðbeinanda frekar en stjórnanda.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×