Innlent

„Þetta var bara einfaldlega ekki nóg“

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Ljósmæður felldu nýjan kjarasamning við íslenska ríkið í atkvæðagreiðslu sem lauk í nótt með miklum meirihluta. Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir samninginn einfaldlega ekki nógu góðan.

Áttatíu og sjö prósent félaga í Ljósmæðrafélagi Íslands tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, en sextíu og þrjú prósent þeirra kusu að fella samninginn, 33,7 prósent kusu með og þrjú komma þrjú prósent skiluðu auðu. Samningurinn var undirritaður í síðustu viku eftir fjölmarga formlega og óformlega samningafundi.

Taldir þú þennan samning nógu góðan?

„Nei, í rauninni hefði maður viljað gera miklu, miklu betur,“ segir Katrín Sif.

Segir ekki nægilega lagt í

Í samningnum fólst meðal annars rúmlega fjögurra prósenta launahækkun auk þess sem gert var ráð fyrir sextíu milljón króna greiðslu til launaleiðréttingar og fleiri aðgerða.

„Það er ekki nægilega lagt í. Við náttúrulega lögðum upp með það að við viljum fá leiðréttingu á launasetningu sem okkur finnst algjörlega réttlætanleg og sanngjörn og höfum fært rök fyrir. Þetta var bara einfaldlega ekki nóg,“ segir Katrín Sif.

Á þriðja tug ljósmæðra höfðu sagt upp störfum í maí, en eftir undirritun samningsins lýstu nokkrar þeirra því yfir að þær hygðust ekki draga uppsagnirnar til baka. Katrín kveðst vona að nýtt samtal komist á um launamálin sem fyrst.

„Ég veit ekki alveg hvort það verði næsta skref að við óskum eftir fundi með samninganefndinni eða hvort við verðum boðaðar á fund, sem væri voða gott. Ég veit ekki heldur hvort við séum ennþá undir ríkissáttasemjara, en mér finnst það bara mjög líklegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×