Enski boltinn

„Þetta var nú ekki erfið ákvörðun“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Wagner var síðasti stjórinn sem mætti Arsene Wenger í stjóratíð Frakkans hjá Arsenal.
David Wagner var síðasti stjórinn sem mætti Arsene Wenger í stjóratíð Frakkans hjá Arsenal. Vísir/Getty
Stuðningsmenn Huddersfield Town fögnuðu vel þegar liðið hélt sér í ensku úrvalsdeildinni á dögunum og ekki mikið minna eftir fréttir dagsins. Knattspyrnustjórinn David Wagner hefur framlengt samning sinn um þrjú ár.

Huddersfield Town endaði í 16. sæti í ensku úrvalsdeildinni í vetur á sínu fyrsta tímabili í langan tíma meðal þeirra bestu en liðið gylltryggði sæti sitt með því að sækja stig á Stamford Bridge.

„Það var nú ekki erfið ákvörðun að framlengja samninginn minn,“ sagði David Wagner í viðtali við BBC.

„Sambandið sem við Christoph og Andy eigum við stjórnaformanninn Dean Hoyle, restina af stjórninni, starfsmenn félagsins og stuðningsmennina er mjög sérstakt,“ sagði Wagner.



 

„Við höfum afrekað ótrúlega hluti saman í þessi tvö og hálft ár og ég er mjög spenntur fyrir framtíðinni,“ sagði Wagner.

„Við eigum enn mikið verk fyrir höndum að aðlaga félagið okkar að ensku úrvalsdeildinni. Félagið og fólkið innan þess hefur metnaðinn, ástríðuna og hugarfarið til að takast á við það verkefni,“ sagði Wagner.



Wagner settist í stjórastólinn á John Smith leikvanginum í nóvember 2015. Tólf mánuðum síðar var liðið komið upp í úrvalsdeildina.  Hann hefur gert magnaða hluti með takmarkaðan leikmannahóp.

Wagner er ekki eini Þjóðverjinn í mikilvægari stöðu hjá félaginu því fyrr í þessum mánuði tók Olaf Rebbe við sem íþróttastjóri. Þjóðverjarnir fá því það verkefni í sumar og styrkja liðið fyrir tímabil númer tvö sem er alltaf skeinuhætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×