Enski boltinn

Frank Lampard orðinn stjóri Derby County

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard með Derby búninginn.
Frank Lampard með Derby búninginn. Vísir/Getty
Chelsea-goðsögnin Frank Lampard er sestur í stjórastólinn hjá enska b-deildarliðinu Derby County en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning.

Þetta er fyrsta stjórastaða Lampard á ferlinum en hann verður sjöundi stjóri félagsins á aðeins rúmlega þremur árum.

Lampard er 39 ára gamall. Hann er markahæsti leikmaður Chelsea frá upphafi, lék 649 leiki fyrir félagið og alls 106 sinnum fyrir enska landsliðið.





Lampard hefur verið orðaður við Derby County undanfarna daga þannig að ráðningin kemur ekki á óvart en nú hafa forráðamenn Derby endanlega staðfest fréttirnar. Hann var einn af tuttugu sem sóttu um.

„Ég vildi alltaf fá að stýra félagi með mikla hefð og sögu eins og er hjá Derby County þannig að þetta er risatækifæri,“ sagði Frank Lampard við BBC.

Lampard tekur við af Gary Rowett. Rowett hætti með liðið í maí og gerðist í framhaldinu knattspyrnustjóri Stoke City.

Derby County endaði í sjötta sæti í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð og tapaði síðan fyrir Fulham í umspilinu um laust sæti í ensku úrvalsdeildinni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×