Innlent

Landsmenn sjá allir til sólar á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hlýjast verður norðaustanlands á morgun.
Hlýjast verður norðaustanlands á morgun. Skjáskot/veðurstofa

Á morgun er gert ráð fyrir að hæðarhryggur fari yfir landið og því lægir vind og rofar til. Á einhverjum tímapunkti munu allir landsmenn sjá til sólar, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í dag er hins vegar útlit fyrir suðaustlæga átt á bilinu 5-13 m/s. Víða um land verður rigning með köflum, einkum þó sunnan- og vestanlands. Tvö regnsvæði ganga yfir landið í dag og svolítið hlé verður á rigningunni á milli þeirra. Hiti verður á bilinu 7 til 17 stig og hlýjast norðaustantil á landinu.

Lægð suður af landi veldur rigningunni í dag og í nótt fer lægðarmiðjan til norðurs yfir landið og áfram verður vætusamt. Í fyrramálið snýst svo í skammvinna vestanátt í kjölfar lægðarinnar og úrkoman fer að minnka, með áðurgreindum afleiðingum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á mánudag:
Vestan 8-13 m/s um morguninn og víða rigning, en lægir og styttir upp með deginum. Breytileg átt 3-8 síðdegis, bjart með köflum og yfirleitt þurrt. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast austanlands.

Á þriðjudag:
Suðaustan 10-15 suðvestan- og vestanlands með rigningu og súld og hita 8 til 12 stig. Suðaustan 3-10 á Norður- og Austurlandi, léttskýjað og hiti 15 til 20 stig.

Á miðvikudag:
Suðvestan 3-8, skýjað og smásúld eða þokuloft, hiti 7 til 12 stig. Bjartviðri norðaustantil á landinu með hita að 20 stigum.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:
Útlit fyrir vestanátt. Skýjað vestanlands og sums staðar þokuloft, en bjart með köflum annars staðar. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast austast á landinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.