Enski boltinn

Segja áhugaleysi Real og PSG opna óvæntan möguleika fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianluigi Donnarumma.
Gianluigi Donnarumma. Vísir/Getty
Markvarðarleit Liverpool gæti endað hjá AC Milan á Ítalíu ef marka má frétt ítalska blaðsins La Repubblica í dag.

Frammistaða Loris Karius í marki Liverpool liðsins í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fer í sögubækurnar sem eitt mesta klúðrið í sögu keppninnar. Það þarf því ekki að koma á óvart að hver markvörðurinn á fætur öðrum sé nú orðaður við Liverpool.

Mirror slær því upp að Liverpool hafi sett allt á fullt í leit sinni að nýjum markverði og efstir á listanum séu þeir Alisson hjá Roma og Jan Oblak hjá Atletico Madrid.

Það eru hinsvegar fleiri markverðir orðaðir við Liverpool liðið því ítalska blaðið La Repubblica slær því upp að Liverpool sé að skoða möguleikann á því að kaupa Gianluigi Donnarumma frá AC Milan.

Það er ekki eins og þetta hafi verið fyrstu stóru mistökin hjá markverði Liverpool síðan að Jürgen Klopp tók við. Loris Karius og Simon Mignolet hafa gert marga stuðningsmenn Liverpool gráhærða á síðustu tímabilum.

Alisson hefur verið orðaður við Liverpool í allan vetur en það er ekki að hjálpa til að Liverpool fékk stórstjörnu sína Mo Salah fyrir lítið frá Roma síðasta sumar og ítalska félagið er ekki að fara gefa þeim neitt að þessu sinni.

Það kostar síðan 80 milljónir punda að kaupa upp samning Jan Oblak hjá Atletico Madrid og Liverpool er aldrei að fara að borga slíka upphæð fyrir markvörð. Þessir tvær gætu því verið of dýrir.

Timo Horn, markvörður Köln, er síðan annað nafn sem hefur komið upp á yfirborðið en hann hefur þegar hafnað því einu sinni að koma til Klopp.

Ítalski markvörðurinn Donnarumma hefur verið orðaður við stórlið Real Madrid og Paris Saint Germain síðustu misseri en bæði félög hafa misst áhugann á honum samkvæmt frétt La Repubblica.

Donnarumma gerði sig sekann upp mistök á þessu tímabili með AC Milan og Real og PSG hafa leitað á aðrar slóðir. Líklegt er að Gianluigi Buffon endi sem dæmi hjá Paris Saint Germain. Real hefur einnig misst áhugann.

Gianluigi Donnarumma er enn bara 19 ára en hefur spilað í marki AC Milan síðan 2015. Hann átti að taka við af Buffon hjá ítalska landsliðinu og á sem dæmið metið sem yngsti markvörður ítalska landsliðsins frá upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×