Skoðun

Félag atvinnurekenda sendir ráðherra rangar upplýsingar

Sunna Gunnars Marteinsdóttir skrifar
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félag atvinnurekenda sendi bréf í vikunni á heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra vegna tillagna um að beita efnahagslegum hvötum í lýðheilsuskyni þar sem voru meðal annars tillögur um sykurskatt.

Fer Ólafur með rangfærslur í bréfinu sem skylt er að leiðrétta, sérstaklega í ljósi fréttaflutnings af málinu sem fór víða. Segir í bréfinu meðal annars „Þannig eru u.þ.b. 33 grömm af sykri í 330 ml dós af algengum gosdrykk, en 44 grömm í dós af Hrísmjólk frá Mjólkursamsölunni.“ Þetta er rangt.

Hrísmjólk, sem er greinilega merkt sem eftirréttur til upplýsinga fyrir neytendur, inniheldur 32 gr af sykurtegundum. Þar af er hluti þess náttúrulegur sykur í mjólkinni svo að í réttinum og sósunni sem fylgir með er í raun 26 gr af sykri í hverri dós.

Mistökin sem Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri gerir í sínum útreikningi er að segja að öll kolvetni í vörunni séu sykur. Svo er ekki enda hrísgrjón eitt af mikilvægri innihaldsefnum í Hrísmjólkinni.

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

Þegar horft er á framleiðslu Mjólkursamsölunnar fer um 92% af allri mjólk í vörur án viðbætts sykurs eða sætuefna. Tæplega 15 þúsund tonn af sykri voru flutt inn árið 2016 skv. Hagstofunni og var ekkert af þeim sykurinnflutningi á vegum MS.

Mjólkursamsalan hefur hefur minnkað sykur í vörum sínum,  í einstökum vörum um allt að 30% frá árinu 2012 en auk þess skilgreint vörur sem eftirrétti þar sem á við til að gera neytendum auðveldara  að velja vörur við hæfi. Er á stefnu fyrirtækisins að gera enn betur í þeim efnum í nánustu framtíð og höfum við sett okkur markmið í þeim efnum.

Mjólkursamsalan veit að það að hjálpa neytendum að taka upplýstar og góðar ákvarðanir kemur öllum til góða. Rannsóknir embættis landlæknis og rannsóknarstofu í næringarfræðum við HÍ og Landsspítala eru þar mikilvægar stofnanir í því samhengi. Dæmi um þetta eru rannsóknir á að D-vítamínneysla landsmanna er talsvert undir ráðleggingum og er D-vítamínneysla ungmenna sérstaklega lág. Því hóf Mjólkursamsalan árið 2012 sölu á D-vítamín bættri mjólk sem var gert samkvæmt ráðleggingum Embættis landlæknis og rannsóknarstofu í næringarfræðum við HÍ og Landsspítala. Er þetta dæmi um samvinnu opinbera aðila og einkaaðila sem skilar ávinningi fyrir samfélagið.

Það að hagsmunasamtök eins og Félag atvinnurekenda taki eina vöru frá fyrirtæki í rökstuðningi sínum og nafngreini sérstaklega er samtökunum og aðildarfélögum þess ekki til framdráttar hvað þá að fara með rangfærslur í því samhengi.  Mjólkursamsalan mun því senda leiðréttingu til beggja ráðherra.

Höfundur er verkefnisstjóri í upplýsinga-og fræðslumálum hjá MS.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×