Innlent

Umdeild ráðstefna á Grand hótel blásin af

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tommy Robinson mætti ekki til Íslands í morgun eins og til stóð.
Tommy Robinson mætti ekki til Íslands í morgun eins og til stóð.

Sprungið dekk og mögulegt dauðsfall í fjölskyldu Tommy Robinson verður til þess að ekkert verður af ráðstefnu Robinson á Grand Hóteli í kvöld. Skipuleggjandi greip í tómt þegar hann renndu suður á Keflavíkurflugvöll í morgun þar sem hann átti von á að Robinson biði hans.

Robinson er aðgerðarsinni sem vakið hefur töluverða athygli vegna skoðana sinna á múslimum. Fjallar hann á eigin forsendum um hættuna sem hann telur fylgja islam og baráttuna fyrir málfrelsi. Hann þvertekur fyrir að vera hægriöfgamaður sem er þó titill sem allajafna er notaður þegar fjallað er um hann.

Fjölmenningin, vandamál og lausnir, var yfirskrift ráðstefnunnar en í auglýsingu sagði:

Breski aðgerðasinninn og rithöfundurinn Tommy Robinson flytur erindi um þær áskoranir og vandamál sem fjölmenningin í Evrópu hefur framkallað og hvernig greiða mætti úr málum öllum til hagsbóta. Ráðstefnugestum gefst kostur á að spyrja Tommy spurninga og síðan verða pallborðsumræður. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Nú er ljóst að ekkert verður af ráðstefnunni.


Salurinn hætti við

Ágúst Borgþór Sverrisson, blaðamaður DV, hefur fjallað nokkuð um komu Robison undanfarnar vikur á DV. Upphaflega átti ráðstefnan að fara fram í Salnum í Kópavogi þann 18. maí en staðsetningu og tímasetningu var breytt eftir að Salurinn tók viðburðinn af dagskrá.

Sigurfreyr Jónsson, talsmaður Vakurs - Samtök um evrópska menningu sem stóð að komu Robinson, taldi ákvörðunina eiga sér pólitískar orsakir. Fyrir það þvertók forsvarskona Salarins. Úr varð að Grand Hótel var bókað fyrir kvöldið í kvöld. Kom skýrt fram í auglýsingu fyrir kvöldið að töskur og bakpokar væru ekki leyfð í salnum og sömuleiðis ekki ljósmyndataka.

Ókeypis átti að vera á viðburðinn þar sem styrktaraðilar lögðu hönd á plóg eftir því sem fram kemur í umfjöllun DV. Hafa þau Sigurfreyr og Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur sem vakið hefur athygli fyrir harðar skoðanir sínar á múslimum, auglýst viðburðinn.

Gústaf Níelson, sagnfræðingur og fyrrverandi frambjóðandi hjá Íslensku þjóðfylkingunni, er einn þeirra sem var spenntur fyrir komu Robinson til landsins.
Andmælendur vildu ekki mæta

Babb kom í bátinn í gær þegar Sigurfreyr upplýsti að ekkert yrði af pallborðsumræðum á Grand hótel þar sem enginn gangrýnandi Robinson, af fjölmörgum sem Sigufreyr hefði haft samband við, hefði þekkst boðið.

„Enginn af þeim 11 manna hópi sem haft var samband við sem hugsanlegir andmælendur Tommy Robinson sáu sér fært að mæta. Sum þeirra sem rætt var við höfðu haft stór orð um Tommy Robinson, en þegar þeim var boðið að mæta honum í rökræðum treystu þau sér ekki til þess,“ sagði Sigurfreyr.

Í morgun rann upp ráðstefnudagurinn sjálfur og auglýsti Margrét viðburðinn á tólfta tímanum í morgun í Stjórnmálaspjallinu á Facebook. Um svipað leyti staðfesti Sigufreyr að ekkert yrði af ráðstefnunni vegna fjarveru Robinson.

Viðar Þorsteinsson, heimspekingur, og Ágúst Borgþór, blaðamaður DV, ræddu um komu Robinson í Harmageddon á dögunum.

Sprungið dekk eða dauðsfall?

„Aðstoðarmaður hans hafði samband við okkur í gær og sagði okkur að það hefði sprungið dekk á bílnum þeirra á leið upp á flugvöll og þeir ekki hafa viljað skilja bílinn eftir og þess vegna misstu þeir af fluginu,“ sagði Sigurfreyr við DV í morgun.

Annað flug hafi verið bókað og von verið á Robinson til landsins í morgun. Í Keflavík greip Sigurfreyr í tómt og hélt heim eftir tveggja tíma bið. Segist Sigurfreyr hafa fengið þau svör að Robinson kæmi ekki vegna dauðsfalls í fjölskyldunni.

„Ég vil vita hver dó,“ segir Sigurfreyr við DV og virðist efins um svör aðstoðarmanns Robinson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.