Skoðun

Af hverju ættum við að fjárfesta í börnum?

Ragnhildur Reynisdóttir skrifar
Ég var á fyrirlestri um daginn  sem fjallaði um það hversu  mikið við getum búist við að kostnaður í heilbrigðiskerfinu muni vaxa á næstu árum. Það er skemmst frá því að segja að sú kostnaðaraukning er umtalsverð. Ástæðan er auknar kröfur um þjónustu og meðferðir og fjölgun í efsta aldurshópnum. Þetta væri kannski ekki svo mikið áhyggjuefni ef við sæjum sömu fjölgun fæðinga en það er því miður ekki svo. Það segir sig sjálft að á meðan dregur úr fæðingum og öldruðum fjölgar verður ekki einungis erfitt að reka heilbrigðisþjónustuna til framtíðar heldur alla aðra þjónustu, svo sem velferðarþjónustu, menntakerfið, samgöngukerfið svo eitthvað sé nefnt.

Er þá ekki ljóst að við þurfum að hlúa að barnafjölskyldum og hvetja ungt fólk til að eignast börn og búa þeim umhverfi til að dafna? Þau munu sjá um mig, og sennilega líka þig kæri lesandi, þegar við þurfum á þjónustu að halda.

Mér finnst það borðleggjandi. Sem samfélag þurfum við á því að halda að fæðingarorlof verði lengt og báðir foreldrar hvattir til töku þess. Foreldrar þurfa að hafa vissu fyrir því að þau hafi aðgang að öruggri vistun fyrir börn sín þegar orlofinu lýkur, hvort sem um er að ræða ungbarnaleikskóla eða dagforeldri. Við þurfum ennfremur að hlúa að börnunum með góðri og heildstæðri menntun innan leik- og grunnskóla, aðgang fyrir alla að fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi, ásamt hollri næringu og geðheilbrigðisþjónustu.

Við í BF Viðreisn viljum að Kópavogur móti heildstæða stefnu um þjónustu fyrir börn frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til þau fara í framhaldsskóla. Draga úr kostnaði foreldra og jafna aðstöðu barna til náms og tómstunda. Við viljum tryggja börnum góða næringu og aðgang að sálfræðiaðstoð þegar við á.

Með því að forgangsraða fjármunum okkar í þágu barna fáum við ekki einungis fleiri börn í Kópavog heldur mun menntakerfið okkar brautskrá fleiri forvitna, lífsglaða og sjálfsörugga einstaklinga sem hafa getu til að standa á eigin fótum, rýna sér til gagns og taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi, ásamt því að vilja sinna mér og þér.

Höfundur er markaðsstjóri og ljósmóðir og skipar 3. sæti á lista BF Viðreisnar í Kópavogi.




Skoðun

Skoðun

Biskupsval

Sigfinnur Þorleifsson,Vigfús Bjarni Albertsson skrifar

Sjá meira


×