Innlent

Dreifa dömubindum og túrtöppum um borgina

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Konurnar í Kvennahreyfingunni vilja koma hreinlætisvörum inn í allar opinberar byggingar.
Konurnar í Kvennahreyfingunni vilja koma hreinlætisvörum inn í allar opinberar byggingar. Vísir/Egill
Kvennahreyfingin, sem býður fram til borgarstjórnar, mun á morgun og næstu daga koma dömubindum og túrtöppum fyrir víðs vegar um borgina. Þetta er liður í átaki liðskvenna í Kvennahreyfingunni sem miðar að því að vekja fólk til umhugsunar um þarfir alls fólks í almannarýminu.

Átakið hefst á morgun, laugardag, klukkan 15.30 og verður fyrstu bindunum komið fyrir í salernum Ráðhúss Reykjavíkur.

„Við ætlum að lauma þeim hingað og þangað,“ segir Ólöf Magnúsdóttir, oddviti Kvennahreyfingarinnar, um næstu daga.  

„Eitt af okkar aðalstefnumálum er að okkur finnst dömubindi og túrtappar vera sjálfsagðar hreinlætisvörur. Helmingur mannkyns fer á túr reglulega. Okkur finnst að þetta eigi að vera í öllum opinberum byggingum á vegum borgarinnar.“ Kvennahreyfingarkonum þykir bæði sjálfsagt og eðlilegt að aðbúnaður og aðstaða endurspegli þennan veruleika.

Þeim finnst sérstaklega aðkallandi að hreinlætisvörurnar séu í boði í skólum landsins.

„Í skólum erum við með ungt fólk sem fer á blæðingar og maður veit ekki hvernig aðgangur allra er að þessum hreinlætisvörum og þess vegna finnst okkur þetta mjög mikilvægt.“

Ætliði að hrinda þessu í framkvæmd, þegar og ef þið komist í borgarstjórn?

„Já, þetta er á aðgerðaráætlun okkar sem eitt af okkar stóru málum og við munum tala fyrir þessu í borgarstjórn, alveg hiklaust.“

Ólöf segir að það ríki baráttuhugur og gleði innan Kvennahreyfingarinnar. „Við mældumst með 2% í síðustu könnun þannig að við erum agalega bjartsýnar og hamingjusamar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×