Innlent

Sósíalistar vilja að borgin stofni byggingafélag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Efstu tveir frambjóðendur á lista Sósílaista í Reykjavík, oddvitinn Sanna Magdalena Mörtudóttir og Daníel Örn Arnarson.
Efstu tveir frambjóðendur á lista Sósílaista í Reykjavík, oddvitinn Sanna Magdalena Mörtudóttir og Daníel Örn Arnarson. Sósíalistar
Framboð Sósíalistaflokks Íslands vill að Reykjavíkurborg stofni sitt eigið byggingafélag, sem byggi íbúðir fyrir það „fólk sem er í mestum vanda.“

Í tilkynningu frá flokknum er haft eftir Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalista í Reykjavík, að hún telji að almenningur geti ekki greitt „hinum auðugu arð af öllum stigum íbúðabygginga,“ eins og hún orðar það.

„Eins og staðan er í dag þurfum við að borga lóðabraskaranum sinn gróða, eigendum byggingavöruverslunarinnar sinn hagnað, verktakanum sína álagningu og eigendum leigufélagsins sinn arð. Þetta leggst ofan á alla vextina sem við borgum á endanum, vextina af okkar lánum og lánunum sem fyrirtækin taka. Fátækar fjölskyldur, láglaunafólk, lífeyrisþegar, öryrkjar og annað fólk sem er í húsnæðisvanda getur ekki staðið undir þessu öllu,“ er haft eftir Sunnu í tilkynningunni.

Daníel Örn Arnarson, verkamaður og annar maður á lista sósíalista, er á sama máli. „Við erum klemmd á milli lágra launa og okurleigu,“ er haft eftir Daníel í tilkynningunni. „Húsnæðiskerfið er byggt upp svo að fáir aðilar geti hagnast sem mest: Lóðabraskarar, byggingarvörufyrirtæki, verktakar, húsaleigufyrirtæki.“

„Hin verst settu geta ekki staðið undir hinum ríku. Þeir verða að finna sér aðra tekjulind en húsnæðiskreppu láglaunafólks.“

Í tilkynningunni er hugmynd Sósíalista jafnframt reifuð. Þeir vilja að Reykjavíkurborg sjálf stofni byggingafyrirtæki, sem flytji sjálft inn byggingarefnið, byggi sjálft húsin á borgarlandi og leigi sjálf út íbúðirnar. Sósíalistar vilja að byggt verði upp húsnæðiskerfi sem er algjörlega einangrað frá „gróðafyrirtækjum,“ eins og þau orða það.

Máli sínu til stuðnings vísa Sósíalistar í söguna. Reykvíkingar stofnuðu til að mynda Bæjarútgerð Reykjavíkur til að útvega fólki örugga vinnu eftir stríð. Þá blása þau á þá gagnrýni að hugmyndir þeirra séu of kostnaðarsamar.

„Reykjavíkurborg réð við að byggja upp Hitaveituna, skipta út olíu- og kolakyndingu og setja heitt vatn í hvert hús,“ bendir Daníel á. „Ef markaðurinn hefði fengið að ráða værum við enn að hita húsin með kolum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×