Enski boltinn

Southampton þurfti að skipta um hótel fyrir fallslaginn en var ástæðan lygi?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mark Hughes þakkar stuðningsmönnum eftir leikinn á laugardag gegn Everton. Það eru mögulega brögð í tafli fyrir leik liðsins gegn Swansea í kvöld.
Mark Hughes þakkar stuðningsmönnum eftir leikinn á laugardag gegn Everton. Það eru mögulega brögð í tafli fyrir leik liðsins gegn Swansea í kvöld. vísir/getty
Það er rosalegur leikur í botnbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld er Swansea og Southampton mætast í Wales. Sigurvegarinn fer langleiðina með að halda sér uppi í deildinni.

Swansea er núna í fallsæti með 33 stig en Southampton er í sautjánda sætinu á markahlutfalli. Sigri Southampton fara þeir upp fyrir Huddersfield en sigri Swansea komast þeir bara upp fyrir Southampton.

Það hafa vaknað margar spurningar fyrir leikinn í kvöld. Leikmenn Southampton ætluðu að gista á Marriott hótelinu í Swansea en á sunnudaginn fengu þeir skyndilega símtal um að það væri vírus að ganga á hótelinu og þeir gætu ekki gist þar.

Forráðamenn Southampton voru á alls kosta ekki sáttir og vildu fá að senda sitt fólk á svæðið og kanna þetta en þeir fengu nei. Enn meira athygli vakti að þrátt fyrir vírusinn sem átti að hafa verið að ganga á hótelinu þá gat blaðamaður Daily Mail bókað sér herbergi á hótelinu.

Tveimur dögum fyrir leikinn þurfu Southampton því að skipta um hótel og munu nú gista á Vale of Glamorgan hótelinu sem er staðsett í Cardiff. Það er rúmur klukkutíma akstur frá hótelinu þaðan.

Þetta gerir leik liðanna enn meira spennandi í kvöld en þessi gífurlega mikilvægi leikur verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Hefst hann klukkan 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×