Enski boltinn

Messan um fall Stoke: „Trúi því ekki að hann sé rétti maðurinn“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Stoke er fallið niður í B-deildina eftir tap gegn Crystal Palace á laugardaginn. Gestir Messunnar á sunnudag höfðu báðir tengingu við Stoke en Hjörvar Hafliðason var á mála hjá Stoke á meðan Guðjón Þórðarson, faðir Jóhannesar Karls, þjálfaði Stoke um tíma.

„Ég er enn að svekkja mig á því að Stoke hætti að vera Tony Pulis lið og fór yfir í Mark Hughes sem gerði alveg ágæta hluti. Þeir láta hann fara og velja Paul Lambert,” sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, einn spekinga þáttarins.

„Ég horfði á þennan leik og þeir voru aldrei líklegir til að vinna þennan leik. Þeir voru illa skipulagðir og við sáum það í mörkunum áðan að varnarleikurinn var út um allt. Það var bara erfitt að finna öftustu fjóra.”

Leikmannakaup Stoke voru afar skrýtin og nú síðast í gær steig Jack Butland, markvörður liðsins, fram og hraunaði yfir þá sem stjórna leikmannakaupum hjá liðinu. En hvaða breytingar verða á liðinu núna?

„Shaqiri er farinn, Jack Butland sem Bretarnir halda að sé einhver af besti ungum markvörðum í heiminum fer. Það er stórkostlegur misskilningur. Hann hefur ekkert getað í vetur,” sagði Hjörvar Hafliðason.

Jóhannes Karl hefur enga trú á því að Paul Lambert sé rétti maðurinn til að leiða Stoke aftur upp í deild þeirra bestu.

„Fyrir mann sem er að skipuleggja úrslitaleik eins og Paul Lambert í þessum leik. Að skipulagið hafi verið svona skelfilega lélegt; ég trúi því ekki að maðurinn geti verið sá rétti til að stýra liðinu til framtíðar,” sagði Jóhannes.

Allt innslagið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×