Fótbolti

Rómverjar mæta á Anfield

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Becker Allison, markvörður Roma, fær eitthvað að gera í kvöld.
Becker Allison, markvörður Roma, fær eitthvað að gera í kvöld. vísir/getty
Liverpool tekur á móti Roma á Anfield í kvöld í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu en seinni leikurinn fer fram í höfuðborg Ítalíu að viku liðinni.

Verður þetta sjötti leikur liðanna í Evrópukeppnum og sá fyrsti síðan 2002 en ítalska félagið hefur aðeins unnið einn leik til þessa. Eftirminnilegur leikur í sögu þessara félaga er þegar Rómverjar tóku á móti Liverpool í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1983 en þar hafði Liverpool betur eftir vítaspyrnukeppni.

Mun mikið mæða á varnarlínu Roma við að stöðva Mohamed Salah sem kosinn var leikmaður ársins á Englandi um helgina en þeir ættu að þekkja vel til Egyptans. Lék hann tvö ár í rauðri treyju Roma með góðum árangri áður en Liverpool keypti hann yfir til Englands í sumar.

Salah hefur einfaldlega verið óstöðvandi eftir að hann kom til Englands en hann hefur skorað 41 mark og lagt upp önnur tólf á fyrsta ári sínu í Bítlaborginni.

Lykilatriðið fyrir Rómverja verður að reyna að stöðva leiftur­snögga sókn Liverpool.

Salah, Firmino og Mane hafa skorað 83 mörk á þessu tímabili en Rómverjar ættu að mæta til leiks fullir sjálfstrausts eftir að hafa slegið út Barcelona á dögunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×