Lífið

Augnablikið þegar Elísabet sá fjölskylduna sína í fyrsta sinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Elísabet er 16 mánaða gömul.
Elísabet er 16 mánaða gömul.
„Þetta er voðalega sætt og aðalpersónan er mjög falleg og augnablikið líka,“ segir Eva Hrönn Jónsdóttir, móðir Elísabetar Evu Gretarsdóttur, sem setti upp gleraugu í fyrsta sinn á ævi sinni í gær.

Elísabet er 16 mánaða gömul og hefur í raun aldrei séð heiminn eins og hann er í raun og veru. Í gær sá hún fjölskyldu sína í fyrsta sinn og var augnablikið fest á filmu.

„Hún hefur væntanlega ekkert séð frá fæðingu. Hún var farinn að vera aðeins rangeygð í febrúar og ég fór með hana til augnlæknis í mars. Ég hélt kannski að hún væri tileygð en hún var í raun að hvíla annað augað til að reyna ná að sjá í fókus. Augnlæknirinn mældi hana með +8 á báðum augum og svo fengum við gleraugun loksins í gær.“

Eva segir að Elísabet hafi skoðað umhverfi sitt vel alveg síðan að hún fékk gleraugun.

„Hún er að horfa mjög vel á allt í kringum sig, sem er kannski ekki skrýtið því hún er að sjá allt í fyrsta skipti. Bækur og dót eru að heilla hana og hún sat t.d. í fyrsta skipti í gær og horfði á sjónvarpið með systur sinni,“ segir Elísabet en hér að neðan má sjá þetta einstaka augnblik, þegar Lísa sá í fyrsta sinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×