Erlent

Berjast um 80 milljóna brunarúst

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Heitasta eignin á markaðnum.
Heitasta eignin á markaðnum. Facebook
Fasteignasali í Kísildalnum hefur átt í vök verjast eftir að hafa auglýst hús til sölu á 800 þúsund dali, rétt rúmlega 80 milljónir íslenskra króna.

Það þykir í sjálfu sér ekki hátt fasteignaverð á þessum gríðarlega vinsæla stað í Kaliforníu, sem er skammt frá mörgum af stærstu tæknifyrirtækjum heims.

Netverja rak hins vegar í rogastans þegar þeir sáu myndina af fasteigninni sem er ein brunarúst eftir mikinn eldsvoða fyrir tveimur árum síðan. Eins og sjá má af myndunum hér að ofan og neðan stendur hjallurinn óíbúðarhæfur eftir.

Um er að ræða lítið einbýlishús og 540 fermetra lóð á hinu svokallaða Flóasvæði San Francisco. Íbúðaverð í borginni hefur hækkað hratt á undanförnum árum og þá ekki síst vegna hálaunaðra hátæknistarfa sem fjölgað hefur gríðarlega á svæðinu.

Stór garður, tilvalinn fyrir kaupendur með græna fingur.Facebook
Þrátt fyrir að íbúðaverð sé almennt hátt í San Francisco fékk fasteignasalinn engu að síður að heyra það á Facebook, þar sem hann auglýsti brunarústina. Var hún meðal annars kölluð „ruslagámur með þaki“ af einum örgum netverja.

Fasteignasalinn Holly Barr lætur þetta þó ekki á sig fá og segir í samtali við fjölmiðla vestanhafs að verðið sé fullkomlega réttlætanlegt. Ekki aðeins sé lóðin nokkuð stór miðað við það sem gengur og gerist heldur sé það skammt frá stórfyrirtækjum á borð við Facebook og Google, fyrirtækjum sem geti borgað há laun. Því ætti kaupandi á þessu svæði að hafa greiðslugetuna til að fjárfesta í þessari einstöku eign.

Barr segir að til marks um að verðið sé ekki út úr kú þá hafi hún þegar fengið nokkur tilboð í eignina. Hún býst jafnvel við því að verðið kunni að hækka enn meira, áhuginn sé svo mikill.

Fulltrúi fasteignasalasamtaka á svæðinu segir að verðið komi sér ekki á óvart. Meðalverð íbúða í hverfinu sé 1,4 milljónir dala, rúmar 140 milljónir króna, og að verðið hækki að meðaltali um 58 þúsund krónur á dag vegna eftirspurnarinnar. Það gerir árlega verðhækkun upp á rúmlega 21 milljón króna.

Eignin býður upp á mikla möguleika fyrir handlagna.Facebook



Fleiri fréttir

Sjá meira


×