Erlent

Stolið málverk aftur til eigenda sinna eftir 30 ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hjónin höfðu fest kaup á verkinu á þriðja áratug síðustu aldar.
Hjónin höfðu fest kaup á verkinu á þriðja áratug síðustu aldar. FBI
Rúmlega 100 ára gamalt málverk eftir Marc Chagall er fundið eftir að hafa verið stolið af heimili fjölskyldu í New York árið 1988. Alríkislögregla Bandaríkjanna segir að fjölskyldan muni aftur fá það í hendurnar eftir að hafa hvorki séð tangur né tetur af því í 30 ár.

Chagall málaði verkið Óþelló og Desdemóna árið 1911 og var því stolið úr íbúð þeirra Ernest og Rose Heller, ásamt fjölda annarra listmuna og skartgripa.

Lögreglan er sögð hafa komist á snoðir um málverkið þegar samviskusamur eigandi listasafns í Washington DC. neitaði tvívegis að kaupa verkið í fyrra. Hann hvatti seljandann til að setja sig í samband við yfirvöld til að fá úr því skorið hvort málverkið væri raunverulega eftir Chagall. Það gerði maðurinn og kom þá í ljós að um hið stolna Chagall-verk væri að ræða.

Maðurinn sem reyndi að selja verkið hafði geymt það í sérútbúnum kassa á háalofti heimilis síns í Maryland árum saman. Hann hafði fengið verkið frá öðrum manni í lok níunda eða byrjun tíunda áratugarins en sá maður er grunaður um að hafa stolið því frá Hellers-hjónunum.

Þau eru bæði látin en eftirlifendur þeirra munu fá Chagall-verkið í hendurnar. Hellers-hjónin voru efnuð og nýttu auðæfi sín til að sanka að sér ýmsum listmunum. Þau áttu til að mynda verk eftir listamenn á borð við Renoir, Picasso, Hopper og fyrrnefndan Chagall.

Verkið er innblásið af skrifum Shakespeare og má þar sjá Óþelló haldandi á sverði er hann horfir á eiginkonu sína, Desdemónu. Upphafsstafir eigendanna, „Mr + Mrs ES Heller, New York“ voru enn ritaðir á verkið.  Þau höfðu fest kaup á verkinu á þriðja áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×