Innlent

Borgaði 2,2 milljónir fyrir flóttann

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Ágúst Guðmundsson sem strauk úr fangelsi í Taílandi á dögunum segist ítrekað hafa verið beittur ofbeldi af samföngum. Hann segist hafa mútað landamæravörðum til að komast úr landi og er frelsinu feginn.

Líkt og DV greindi frá í morgun flúði Ágúst Guðmundsson sem var handtekinn í Taílandi í ágúst úr fangelsi á dögunum. Hann beið dóms vegna ráns en upptaka úr öryggismyndavél sýnir hann spreyja piparúða á tvær afgreiðslukonur áður en hann fer inn fyrir afgreiðsluborðið og nær sér í sígarettur.

Ágúst segist hafa verið ofurölvi við verknaðinn og lítið muna eftir þessu en hann var fljótlega handtekinn og færður í varðhald þar sem hann fékk upplýsingar um að hann gæti átt von á tíu til tuttugu ára dómi.

Hann segir aðstæðurnar hafa verið hræðilegar í fangelsinu. „Ég lenti í herbergi með 159 manns og við sváfum bara í gólfinu á hlið, svo þurftu bara allir að snúa sér við á sama tíma," segir Ágúst. „Ég var laminn daglega og það voru lamdar úr mér tennur, ég var kjálkabrotinn. Ég var barinn daglega. Bara af því ég er hvítur," segir hann.

Ágúst lagði því á ráðin um flótta en með hjálp félaga sinna greiddi hann tryggingafé og komst úr haldi. Vegabréfið hans hafði ekki verið gert upptækt og með réttum samböndum mútaði hann bæði starfsmönnum landamæraeftirlitsins og lögreglunnar. Ágúst segist stórskuldugur eftir flóttann sem hann telur að hafi í heildina kostað um 2,2 milljónir króna.

Hann segist frelsinu feginn en ætlar ekki aftur til Asíu.

„Aldrei. Ég er nefnilega strokufangi,“ segir Ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×