Innlent

Vatnavextir og hvassviðri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Veðrið gengur fyrst niður á Suðurlandi.
Veðrið gengur fyrst niður á Suðurlandi. Veðurstofan
Hvassviðri og rigning mun setja svip sinn á allan suður- og austurhluta landsins í dag. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir Austfirði, Suðausturland og Suðurland í dag en á síðastnefnda svæðinu ætti veðrið að róast með morgninum.

Vindhraðinn á suðurhelmingi landsins verður á bilinu 15 til 23 m/s og búast má við að vindhviður við fjöll fari yfir 30 m/s.

Snjóbráðnun á Austurlandi mun auka mjög á vatnsrennsli í ám og lækjum á svæðinu. Eftir að gildistíma viðvörunar lýkur síðar í dag verður þó áfram verður vætusamt, en mun minni úrkoma.

Hitinn á landinu í dag verður á bilinu 6 til 12 stig.

Það snýst svo í stífa suðlægari átt á morgun og mun áfram rigna sunnanlands, en úrkomulítið verður fyrir norðan að sögn Veðurstofunnar. Það hlýnar svo um norðanvert landið og líkur á tveggja stafa hitatölum þar yfir hádaginn.

Á sumardaginn fyrsta, sem er á fimmtudaginn, er útlit fyrir sæmilegasta veður, hægan vind og einhverja vætu. Fyrir norðan og austan gæti sólin jafnvel staldrað við og gert daginn sumarlegan. Hitatölur líklega upp undir 10 stigum í flestum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Sunnan og suðaustan 10-18 m/s og skúrir eða rigning, en þurrt á N- og NA-landi. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):

Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálitlir skúrir S- og V-lands, en að mestu bjart um landið NA-vert. Hiti á bilinu 5 til 10 stig yfir daginn. 

Á föstudag:

Hæg norðlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar skúrir N- og V-lands, en bjart með köflum í öðrum landshlutum. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast S-til. 

Á laugardag:

Vaxandi austanátt með rigningu, einkum sunnan- og austantil síðdegis. Hiti 3 til 9 stig. 

Á sunnudag:

Snýst í norðlæga átt með skúrum eða éljum fyrir norðan og kólnandi veðri, en léttskýjað sunnan heiða. Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst. 

Á mánudag:

Útlit fyrir norðaustlæga átt og él í fyrstu fyrir norðan. Austlægari S-til með skúrum síðdegis. Hiti breytist lítið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×