Innlent

Vatnavextir og hvassviðri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Veðrið gengur fyrst niður á Suðurlandi.
Veðrið gengur fyrst niður á Suðurlandi. Veðurstofan

Hvassviðri og rigning mun setja svip sinn á allan suður- og austurhluta landsins í dag. Gular viðvaranir eru í gildi fyrir Austfirði, Suðausturland og Suðurland í dag en á síðastnefnda svæðinu ætti veðrið að róast með morgninum.

Vindhraðinn á suðurhelmingi landsins verður á bilinu 15 til 23 m/s og búast má við að vindhviður við fjöll fari yfir 30 m/s.

Snjóbráðnun á Austurlandi mun auka mjög á vatnsrennsli í ám og lækjum á svæðinu. Eftir að gildistíma viðvörunar lýkur síðar í dag verður þó áfram verður vætusamt, en mun minni úrkoma.

Hitinn á landinu í dag verður á bilinu 6 til 12 stig.

Það snýst svo í stífa suðlægari átt á morgun og mun áfram rigna sunnanlands, en úrkomulítið verður fyrir norðan að sögn Veðurstofunnar. Það hlýnar svo um norðanvert landið og líkur á tveggja stafa hitatölum þar yfir hádaginn.

Á sumardaginn fyrsta, sem er á fimmtudaginn, er útlit fyrir sæmilegasta veður, hægan vind og einhverja vætu. Fyrir norðan og austan gæti sólin jafnvel staldrað við og gert daginn sumarlegan. Hitatölur líklega upp undir 10 stigum í flestum landshlutum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Sunnan og suðaustan 10-18 m/s og skúrir eða rigning, en þurrt á N- og NA-landi. Hiti 7 til 13 stig, hlýjast fyrir norðan. 

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti):
Suðlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og dálitlir skúrir S- og V-lands, en að mestu bjart um landið NA-vert. Hiti á bilinu 5 til 10 stig yfir daginn. 

Á föstudag:
Hæg norðlæg eða breytileg átt. Lítilsháttar skúrir N- og V-lands, en bjart með köflum í öðrum landshlutum. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast S-til. 

Á laugardag:
Vaxandi austanátt með rigningu, einkum sunnan- og austantil síðdegis. Hiti 3 til 9 stig. 

Á sunnudag:
Snýst í norðlæga átt með skúrum eða éljum fyrir norðan og kólnandi veðri, en léttskýjað sunnan heiða. Hiti 1 til 9 stig, mildast syðst. 

Á mánudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt og él í fyrstu fyrir norðan. Austlægari S-til með skúrum síðdegis. Hiti breytist lítið.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.