Íslenski boltinn

Oliver búinn að skrifa undir og er mættur til Blikanna á Spáni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oliver Sigurjónsson mætir í Kópavoginn á ný.
Oliver Sigurjónsson mætir í Kópavoginn á ný. vísir
Oliver Sigurjónsson, leikmaður Bodö/Glimt í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta, er búinn að skrifa undir lánssamning við uppeldisfélag sitt Breiðablik og spilar með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Þetta staðfestir Oliver í viðtali við Akraborgina sem hefst klukkan 16.00 á X977 í dag líkt og alla virka daga.

Vísir greindi frá því í gær að Oliver væri að ganga í raðir Breiðabliks og nú er það frágengið en miðjumaðurinn öflugi er kominn til móts við Breiðablik á Spáni þar sem liðið er í æfingaferð.

Oliver, sem var lykilmaður í Blikaliðinu 2015 og 2016, gekk í raðir Bodö/Glimt um mitt síðasta sumar en spilaði aðeins 26 mínútur á síðustu leiktíð ytra, meðal annars vegna meiðsla.

Hann hefur verið í stífri endurhæfingu í allan vetur og var ónotaður varamaður í fyrsta leik liðsins í norsku deildinni en hefur ekki verið í leikmannahópnum í síðustu tveimur umferðum.

Oliver verður mikill liðsstyrkur fyrir Blikana sem eru aðeins búnir að fá einn miðjumann til sín fyrir leiktíðina en það er Guðmundur Böðvar Guðjónsson frá ÍA.

Viðtal við Oliver um vistaskiptin má heyra í Akraborgini sem leysir landfestar á slaginu 16.00 á X977.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×