Markalaust í daufum leik á Goodison

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Það gekk lítið hjá liðunum í dag
Það gekk lítið hjá liðunum í dag vísir/getty
Everton og Liverpool skildu jöfn í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í dag. Mikil eftirvænting var fyrir þessum stóra grannaslag erkifjendanna tveggja en leikurinn stóð ekki undir væntingum.

Leikurinn byrjaði ágætlega og áttu bæði lið góð færi á fyrstu tuttugu mínútunum. Dominic Solanke var hársbreidd frá því að koma Liverpool yfir snemma leiks en Jordan Pickford var vel á verði í markinu. Þá átti Yannick Bolasie frábært skot stuttu síðar en Loris Karius gerði vel í markinu hinu megin. Báðir markmenn geta verið ánægðir með framlag sitt í dag.

Liverpool stillti upp nokkuð breyttu liði frá stórsigrinum á Manchester City í Meistaradeild Evrópou á miðvikudaginn. Roberto Firmino og Alex Oxlade-Chamberlain byrjuðu á bekknum og þá var Mohamed Salah fjarverandi vegna meiðsla. Danny Ings byrjaði sinn fyrsta leik fyrir Liverpool síðan 4. október 2015.

Þegar hálftími var liðinn datt allur leikurinn niður og var vart eitt einasta marktæka atvik þar til Michael Oliver flautaði til búningsherbergja. Seinni hálfleikurinn byrjaði eins og sá fyrri endaði. Það fyrsta athyglisverða sem átti sér stað var þegar Wayne Rooney var tekinn út af á 57. mínútu og lét óánægju sína með þá ákvörðun Sam Allardyce vel í ljós.

Alex Oxlade-Chamberlain kom inn á 68. mínútu og aðeins mínútu seinna átti hann skot á markið. Það var þó nokkuð yfir markinu.

Cenk Tosun komst í dauðafæri til þess að koma Everton yfir þegar rúmar tíu mínútur voru eftir af leiknum. Það virðist hafa kveikt aðeins í liði Everton því þeir bláklæddu óðu í marktækifærum síðustu mínúturnar. Ekki tókst þó að koma boltanum í netið og markalaust jafntefli niðurstaðan.

Everton hefur aðeins náð í einn sigur í síðustu 23 leikjum þessara liða, hann kom árið 2010.

Gylfi Þór Sigurðsson var fjarri góðu gamni í dag en hann er enn að jafna sig á meiðslum.







Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira