Skoðun

Framtíð

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Ísland er erfitt land. Kalt, dýrt og samfélagið rótspillt. Samt er þó hvergi í heimi hér betra að búa en einmitt á þessu skeri. Meint hamfarasvæðin hérna eru ekki háskalegri en svo að flóttafólk; börn og fullorðnir, af öllum kynjum, gengur hér á land skælbrosandi, jafnvel grátandi af gleði. Eðlilega er Ísland draumalandið ef þú hrökklast hingað langan veg með óttann í farangrinum og dauðann á hælunum.

Ég leyfði tárum að falla (#föðurhjartað) yfir fréttum Stöðvar 2 þegar hún Salmah litla lauk flótta sínum frá Keníu, í gegnum Úganda, á Íslandi.

Elín Margrét (fréttakona): Við hverju býstu á Íslandi?

Salmah (sjö ára flóttabarn): Framtíð.

Þegar barn svarar með þessu eina orði verður merking þess svo djúp að mann sundlar. Íslensk börn þurfa ekki að láta sig dreyma um framtíð. Þótt efni og aðstæður séu misjöfn þá fáum við sem fæðumst hér framtíðina í vöggugjöf.

Framtíðin og þrá okkar eftir ávísunum á möl og ryð eru í boði náttúrunnar og auðlinda hennar. Síðan er, því miður, undir okkur sjálfum komið hversu lengi þær munu endast.

Framtíðin er einnig takmörkuð auðlind en svo lengi sem við varðveitum þær náttúrulegu munum við alltaf vera aflögufær um helling af framtíð sem við getum leyft börnum eins og Salmah að njóta með börnunum „okkar“. Þar fyrir utan er hvert mannsbarn vitaskuld mannauður þannig að þetta er „solid bissnissplan“ sem meira að segja hjartalausa Excel-fólkið á að fatta.

Rasistunum er svo ekki viðbjargandi. Heimska og mannvonska eru nefnilega ólæknandi.




Skoðun

Skoðun

Vel gert!

Halla Signý Kristjánsdóttir skrifar

Skoðun

Lík­hús

Líneik Anna Sævarsdóttir skrifar

Sjá meira


×