Skoðun

Fjórar klukkustundir meðal fagfólks

Sigurbergur Sveinsson skrifar
Oft er hnjóðað í heilbrigðiskerfið okkar hér á Íslandi og skilja má af umræðu í fjölmiðlum að það sé á heljarþröm. Og eflaust má betur ef duga skal. En stundum er gott að finna á eigin skinni hvernig staðan er í raun og veru. Ég var heppinn og gæfa mín fólst í því að íslenskt heilbrigðiskerfi er ekki eins laskað og ég hafði mátt ætla.

Upphaf sögu þessarar er á laugardagsmorgni í byrjun febrúar 2018. Ég vaknaði allhress en fannst þó eins og ég væri eitthvað undarlegur í öðrum kálfanum. Þetta fannst mér varla geta verið alvarlegt svo ég var í ýmsu stússi og störfum fram eftir degi. Þegar ég kom heim úr vinnu fannst vinkonu minni ástand mitt alls ekki eins og best yrði á kosið og hafði samband við dóttur sína sem er hjúkrunarfræðingur. Hún vildi að ég drifi mig á Læknavaktina, sem ég gerði. Þá var klukkan um sex.

Á Læknavaktinni tók á móti mér geðþekkur læknir sem sá strax að rétt væri að skoða þetta betur svo hann skrifaði upp á „aðgöngumiða“ handa mér á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi. Svo þangað fór ég að bragði, staldraði stutt við á biðstofunni og var brátt kominn í hendurnar á snillingum sem byrjuðu á því að taka úr mér blóðprufu. Það gekk vel og eftir um 20 mínútna bið kom til mín þægilegur ungur læknir sem sótti einhvers konar skanna til að skoða í mér æðarnar. Að því loknu taldi hann að ég hefði fengið blóðtappa í fótinn en til að fá það staðfest yrði hann að leita til sérfræðings í þessum efnum. Og ungi læknirinn átti kollgátuna: Ég hafði fengið stíflu í æð í hægra fæti.

Eftir skamma stund var búið að finna út hvaða lyf myndu henta mér best í þessum óvæntu aðstæðum mínum. Ungi læknirinn sagðist síðan myndu hringja í mig ef eitthvað væri athugavert við nýrun í mér en það var víst helsta læknisfræðilega áhyggjuefnið þegar þarna var komið sögu.

Ég var búinn að fá lyf við heilsubrestinum kl. 10 um kvöldið, aðeins fjórum klukkustundum eftir að ég steig fyrst fæti inn fyrir fyrstu læknadyrnar þennan daginn og vissi ekkert hvað væri um að vera.

Reynsla mín er sú að flæðið gegnum heilbrigðiskerfið virkaði eins og best varð á kosið í mínu tilviki og ekki síst var notalegt að finna hlýjuna og umhyggjuna sem alls staðar mætti mér á þessari vegferð. Og þótt gaman hefði verið að heyra í lækninum aftur er ég ósköp feginn að hann hringdi ekki. Nýrun eru þá í lagi. Ég er einlæglega þakklátur forsjóninni og frábæru heilbrigðisstarfsfólki fyrir að ekki fór verr í þetta sinn. Er hægt að fara fram á meira?

Höfundur er kaupmaður 




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×