Skoðun

Umferðaröryggi á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð

Adda María Jóhannsdóttir skrifar
Það er orðið brýnt að fara í úrbætur á Reykjanesbraut þar sem hún liggur í gegnum Hafnarfjörð.

Reykjanesbrautin er þjóðbraut sem liggur til og frá alþjóðaflugvelli landsins og eina leiðin þaðan inn á höfuðborgarsvæðið.

Umferðarþungi á Reykjanesbraut hefur aukist mikið á undanförnum árum. Mikil uppbygging hefur verið í nýjum hverfum innan Hafnarfjarðar sem liggja sunnan Reykjanesbrautar og frekari uppbygging fyrirhuguð á næstu árum. Fyrirtæki hafa verið að koma sér fyrir á því svæði sem eykur enn á umferð. Þá hefur stóraukinn ferðamannastraumur einnig haft gífurleg áhrif á umferðarþróun, að ógleymdum þeim fjölda fólks sem ferðast til og frá höfuðborgarsvæðinu vegna vinnu.

Íbúar í gíslingu

Á álagstímum eru íbúar ákveðinna hverfa nánast í gíslingu. Reykjanesbrautin klýfur bæinn í tvennt og slysahættan þegar íbúar þurfa að þvera brautina til að sækja verslun og þjónustu er mikil. Þá eru einnig brögð að því að ökumenn reyni að losna við umferðarhnúta á brautinni og fari í gegnum íbúðarhverfi sem við hana liggja. Þar er hámarkshraði víða 30 km/klst. enda leik- og grunnskólar í grennd. Allt þetta skapar mikla hættu.



42% slysa á götum Vegagerðarinnar

Í úttekt sem gerð var af verkfræðistofunni Eflu og liggur til grundvallar drögum að umferðaröryggisáætlun fyrir Hafnarfjarðarbæ kemur fram að umferðarmagn á Reykjanesbraut í gegnum Hafnarfjörð hefur aukist um rúmlega 50% frá árinu 2010 og er áætlað að þar fari yfir 45.000 bílar að meðaltali á dag. Í sömu úttekt kemur fram að 42% allra umferðarslysa í sveitarfélaginu á árunum 2010-2016 urðu á götum sem eru í eigu Vegagerðarinnar.

Brýnast er að ljúka tvöföldun á kaflanum frá Kaldárselsvegi að gatnamótum við Krýsuvíkurveg. Ekki síður mikilvægt er gera endurbætur á tvennum gatnamótum á vegkaflanum frá Kaplakrika að Lækjargötu. Gert er ráð fyrir bráðabirgðaframkvæmdum við þau gatnamót en öllum er ljóst að þær duga ekki til og mikilvægt að huga strax að framtíðarlausn á þessum gatnamótum sem eru meðal slysamestu gatnamóta höfuðborgarsvæðisins.



Ákall eftir samgönguáætlun

Það þarf að marka heildarstefnu fyrir framkvæmdir við Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar þar sem tímasetningar verði ákveðnar og fjármagn tryggt.

Það er því afar brýnt að ráðherra komi fram með samgönguáætlun sem fyrst og að hún liggi fyrir fyrir sveitarstjórnarkosningar. Það er ótækt að ríkisstjórnin sýni ekki á spilin varðandi samgöngur í landinu fyrir þann tíma.

Höfundur er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og 2. varaþingmaður Samfylkingarinnar í Suðvestur­kjördæmi




Skoðun

Skoðun

Sigur­bogi

Dagbjört Ósk Steindórsdóttir skrifar

Sjá meira


×