Skoðun

Ljósmóðir spyr: er menntun máttur?

Hildur Sólveig Ragnarsdóttir skrifar
Þessi fræga setning er komin frá enskum heimspekingi að nafni Francis Bacon. Hann taldi að þekking væri lykillinn að því að geta stjórnað náttúrunni og þar með bætt líf manna. Þessi setning hefur hljómað í eyrum mínum frá því að ég var ung og kom aldrei annað til greina en að ganga menntaveginn. Hvaða menntun það yrði kom svo seinna meir og varð hjúkrunarfræði fyrir valinu til að byrja með og síðar ljósmóðurfræði.

En nú spyr ég, er menntun máttur? Ljósmóðurfræði krefst sex ára háskólanáms, fjögur í hjukrunarfræði og tvö í ljósmóðurfræði.. Starfið sjálft  er krefjandi, flókið, fjölbreytt, skemmtilegt, gefandi en ekki vel launað því miður. Fyrir mér er mátturinn sem fylgir menntun fólgin í því að fá atvinnu og upplifa atvinnuöryggi. Upplifa ánægju í starfi og síðast og en síst ætti menntunin að skila mér þeim launum sem ég þarf til að sjá fyrir fjölskyldu minni. Menntun mín uppfyllir tvennt af þessu, atvinnu og ánægju í starfi.

En það sama er ekki hægt að segja um launin. Launin mín gera mér ekki kleift að sjá fyrir mér og mínum, það finnst mér ekki ásættanlegt. Að fara í gegnum sex ára háskólanám og vera ekki fjárhagslega sjálfstæð. Hvaða skilaboð erum við að senda ungum konum í dag? Vertu viss um að hafa góða fyrirvinnu, vertu vel gift. Eru þetta skilaboð sem við viljum senda?  

Það sem einkennir ljósmæðrastéttina er að hún er kvennastétt. Aðrar kvennastéttir glíma við sama vandamál, þ.e. lág laun. Það virðist vera svo að aðrar stéttir með sambærilegt háskólanám eru að fá hærri laun en ljósmæður. Það er ekki lengur hægt að sætta sig við þetta. Þessu þarf að breyta.

Einnig velti ég því fyrir mér hvað atvinnuveitandi minn er að gera. Ég starfa á Landspítalanum og þannig séð er ríkið minn atvinnuveitandi. Ríkið leggur til peninga í mína menntun með fjárfamlögum til Háskóla Íslands. Ríkið ætti þannig að vera að fjárfesta í menntun. En það er því miður þannig að fjöldi kvenna lýkur menntun í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði en hverfur svo til annarra starfa þar sem launin eru betri. Hvers konar fjárfesting er það? Ætti það ekki að vera hagur í því að fá allar þessar menntuðu konur til starfa og greiða þeim viðunanndi laun?

Heilbrigðisráðherra hefur talað fyrir því að gera betur við kvennastéttir í umönnuarstörfum. Nú þegar samningaviðræður eru á milli ljósmæðra og ríkisins vil ég benda á það að nú er tækifæri til að breyta þessu.




Skoðun

Skoðun

Jón Þór Stefánsson skrifar

Sjá meira


×