Fótbolti

Heimsmeistari frá 1978 skilaði sér ekki upp í flugvél til Íslands

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
René Houseman.
René Houseman. Vísir/Getty
Argentínumaðurinn René Houseman lést á föstudaginn en hann var lykilmaður í heimsmeistaraliði Argentínumanna árið 1978. René átti líka á miðjum níunda áratugnum að hjálpa KR-liðinu að verða Íslandsmeistari í fyrsta sinn í tæpa tvo áratugi.

Argentínumenn urðu heimsmeistarar í fyrsta sinn sumarið 1978 en keppnin fór fram í Argentínu. Houseman skoraði eitt mark í úrslitakeppninni og kom það í 6-0 sigri á móti Perú.





René Houseman var næstum því orðinn leikmaður KR sumarið 1986 en kom þó aldrei til Íslands eins og ætlunin var. Gunnar Guðmundsson sem var formaður knattspyrnudeildar KR á þeim tíma rifjar upp söguna í kringum félagaskiptin í viðtali við Fréttablaðið.

KR-ingar töldu sig hafa náð samningum við bræðurnar Marcelo og René Houseman og kynntu þá fyrir íslensku þjóðinni í nóvember 1985. Aðeins Marcelo skilaði sér þó til Íslands og var síðan farinn af landi burt áður en hann spilaði sinn fyrsta leik með Vesturbæjarfélaginu.

Gunnar segir að Marcelo Houseman hafi fyrst haft samband en þeir voru aðallega spenntir að sjá René Houseman í KR-búningnum sumarið 1986.





„Við vorum áfjáðir í að hann myndi spila með okkur. Á endanum tókust samningar okkar á milli og þetta hefði líklega verið í fyrsta skipti sem heimsmeistari í knattspyrnu karla hefði leikið á íslenskri grundu,“ sagði Gunnar Guðmundsson í viðtali við frettabladid.is.

Gunnar Guðmundsson var á miðri árshátíð KR þegar hann frétti af því að eitthvað hefði komið upp á í ferðalagi René Houseman til Íslands.

„Við fengum veður af því að René Houseman hefði ekki skilað sér í flugvél sem átti að ferja hann frá New York til Íslands og við heyrðum ekkert meira frá honum,“ sagði Gunnar um ferðalag René Houseman en það má lesa allt viðtalið við hann hér.

KR varð ekki Íslandsmeistari fyrr en 1999 en þá var liðið búið að bíða eftir stóra titlinum í 31 ár eða síðan árið 1968.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×