Lífið

Heineken bakkar með umdeilda auglýsingu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Barþjónninn sér bjórlausa konu við enda barborðsins og ákveður að renna bjór til hennar.
Barþjónninn sér bjórlausa konu við enda barborðsins og ákveður að renna bjór til hennar. Skjáskot
Bjórframleiðandinn Heineken á í vök að verjast eftir að fjölmargir, þar með talið rapparinn Chance the Rapper, gagnrýndu auglýsingu fyrirtækisins. Auglýsingin, sem sjá má hér neðan, er talin markast af kynþáttafordómum og ákvað bjórframleiðandinn því að réttast væri að kippa henni úr birtingu.

Í auglýsingunni má sjá barþjón renna flösku af Heineken Light eftir barborðinu. Flaskan fer fram hjá nokkrum blökkumönnum áður en hún stoppar hjá konu með ljósari húð. Því næst birtist slagorð bjórtegundarinnar, Lighter is better, sem þykir heldur misráðið í samhengi auglýsingarinnar. Slagorðið vísi þannig ekki aðeins til þess að um léttbjór sé að ræða heldur einnig að „ljósara sé betra,“ sem gagnrýnendur telja vísun í húðlit leikaranna.

Rappstjarnan Chance the Rapper er meðal gagnrýnenda og sagði hann á Twitter á sunnudag að auglýsingin væri „alveg hræðilega rasísk.“ Hann sagðist einnig velta því fyrir sér hvort fyrirtæki væru meðvitað að stíla inn á kynþáttafordóma til að fá fleiri áhorf á umdeildar auglýsingar sínar.

Í yfirlýsingu frá Heineken biðst fyrirtækið afsökunar og segist ekki hafa hitt í mark með þessari auglýsingu. Bjórframleiðandinn hefur þó fengið mikið lof fyrir auglýsingar, til að mynda í fyrra þegar hann fékk hóp fólks úr mismunandi áttum til að ræða upplifanir sínar.

Auglýsinguna umdeildu má hins vegar sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×