Innlent

Maurar skriðu út úr farangurshólfinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Farþegar þurftu að skilja allan farangur eftir í vélinni.
Farþegar þurftu að skilja allan farangur eftir í vélinni. VÍSIR/STEINGRÍMUR
Flugvél á vegum WOW-air var sett í sóttkví í nokkrar klukkustundir á flugbraut í Montreal í gær eftir að eftirlitsmenn höfðu rekið augun í fjölda maura í vélinni.

Vélin hafði verið að fljúga frá Íslandi og eftir um nokkra klukkustunda flug varð uppi fótur og fit að sögn farþega, sem kanadíski miðillinn CBC ræddi við.

Maurar tóku að skríða úr farangurshólfinu fyrir ofan eina sætaröðina og olli það nokkru uppnámi í vélinni. Þegar hún svo að lokum lenti í Montreal bað flugstjóri vélarinnar alla um að halda kyrru fyrir í sætum sínum.

Eftir um tvær klukkustundir var farþegum svo tilkynnt að þeir þyrftu að skilja allan farangur eftir í vélinni, svo sem yfirhafnir, veski og bakpoka. „Eftir allt ferlið þurftum við að yfirgefa völlinn í stuttermabol,“ er haft eftir farþeganum Marco Lavecchia. „Þau gáfu okkur teppi og vatnsflösku.“

Heilbrigðisyfirvöld í Kanada segja í samtali við kanadíska miðla að þau hafi sett sig í samband við skordýrafræðinga til að fá úr því skorið hvaða maurategund hafði gert sig heimakomna í vélinni.

Þau undirstrika að farþegum hafi ekki staðið nein hætta af maurunum og þau vinni nú í því að eyða öllum leifum af þeim úr vélinni. Til þess verði þau að úða eitri um allt farþegarýmið og á allan farangur.

WOW-Air segir í samtali við CBC að unnið sé að málinu „eftir hefðbundnum aðferðum.“ Flugfélagið hefur þurft að fella niður flugferð sem fyrirhuguð var frá Montreal með sömu vél. WOW segist nú vinna í því að koma öllum farþegum sem áttu bókaða ferð með vélinni á áfangastað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×