Fótbolti

Frumraun Cooks tryggði afa gamla ríflega tvær milljónir

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lewis Cook kemur inn á við mikinn fögnuð afa síns.
Lewis Cook kemur inn á við mikinn fögnuð afa síns. vísir/getty
Lewis Cook, miðjumaður Bournemouth, þreytti frumraun sína með enska landsliðinu í fótbolta í gærkvöldi þegar að hann kom inn á sem varamaður á móti Ítalíu.

Þetta var ekki bara stór stund fyrir strákinn og hans fjölskyldu heldur troðfyllti hún buddu afa Cooks af peningum.

Fyrir fjórum árum lagði afi Cooks nefnilega 500 pund eða 70.000 krónur undir að barnabarnið myndi spila A-landsleik fyrir England áður en að hann yrði 26 ára gamall.

William Hill-veðbankinn tók því veðmáli með líkunum 33 á móti einum. Það skilaði sér þegar að hann kom inn á fyrir Jesse Lingard á móti Ítalíu en afinn fékk 17.000 pund í sinn hlut eða 2,3 milljónir króna.

Cook var mikil stjarna í yngri landsliðum Englands en hann var lykilmaður í U20 ára liði Englands sem varð heimsmeistari í fyrra. Hann er nú kominn í A-landsliðið og búinn að spila sinn fyrsta leik.

Þetta er stærsta upphæð sem William Hill hefur greitt út í svona veðmáli síðan að afi velska landsliðsmannsins Harry Wilson fékk 125.000 pund í sinn hlut fyrir að veðja 50 pundum á að Wilson myndi spila landsleik fyrir Wales.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×