Innlent

Þorgerður fékk 61 atkvæði af 64 í formannskjöri Viðreisnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson á landsþingi Viðreisnar um helgina.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson á landsþingi Viðreisnar um helgina. Mynd/aðsend
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, fékk 61 atkvæði af 64 greiddum atkvæðum á landsþingi flokksins um helgina.

Frá þessu er greint á vefsíðu flokksins en athygli vakti að þegar tilkynnt var um úrslit í formanns-og varaformannskjöri flokksins var ekki greint frá því hversu mörg af greiddum atkvæðum féllu frambjóðendum í vil heldur prósentuhlutfallið sem þeir fengu í kjörinu.

Óskaði Morgunblaðið eftir nánari upplýsingum um atkvæðafjölda og fékk þau svör að hvorki yrði gefið upp hversu mörg atkvæði voru greidd né hversu margir sóttu fundinn.

Það hefur hins vegar nú verið gefið upp og segir í frétt á vef flokksins að hundrað manns hafi sótt landsþingið. Þorgerður Katrín fékk eins og áður segir 61 atkvæði af 64 greiddum atkvæðum í formannssætið og Þorsteinn Víglundsson var kjörinn varaformaður með 65 atkvæðum af 66 greiddum.

66 atkvæði voru síðan greidd í stjórnarkjöri. Þar hlaut Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi formaður flokksins, 58 atkvæði, Hildur Betty Kristjánsdóttir hlaut 54 atkvæði, Sara Dögg Svanhildardóttir hlaut 47 atkvæði, Karl Pétur Jónsson og Sveinbjörn Finnsson hlutu svo 44 atkvæði hvor.

Uppfært klukkan 16.20. Samkvæmt upplýsingum frá Viðreisn stóð aldrei til að gefa ekki upp nákvæman atkvæðafjölda. Tími vannst hins vegar ekki til þess fyrr en seint í gærkvöldi.


Tengdar fréttir

Meðvirkni og ótti við breytingar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, gerði jafnréttismál, fjölþjóðasamvinnu og frjálslyndi að umfjöllunarefni sínu í stefnuræðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×