Sport

Valgerður: „Sannaði fyrir sjálfri mér að ég á heima þarna“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valgerður Guðsteinsdóttir, hnefaleikakona, tapaði á dómaraúrskurði í sínum fyrsta titilbardaga í Noregi um helgina en hún vonast eftir að fá annað tækifæri snemma á næsta ári.

Valgerður fékk óvænt tækifæri á titilbardaga með átta daga fyrirvara gegn einni þeirri bestu í Evrópu, Katharinu Thanderz, frá Noregi. Bardaginn fór fram á heimavelli meistarans og stóð Valgerður allar átta loturnar með Thanderz en tapaði á dómaraúrskurði. Frábær frammistaða gegn frábærum andstæðing.

„Þetta var alveg rugluð vika. Hún leið hratt, alveg ótrúlegt. Það var gaman að geta keppt þarna til að vita hvað býr í manni. Nú er pínu spennufall og rólegheit, en mér líður mjög vel,“ segir Valgerður.

Valgerður stóð sig með mikilli prýði, en að fá svona bardaga á þessu stigi ferilsins segir henni nákvæmlega hvar hún stendur í baráttunni við þær bestu.

„Maður hefur velt því fyrir sér hvort maður eigi heima á meðal þessara stelpna. Ég sannaði það fyrir sjálfri mér og lærði rosalega mikið inn á sjálfa mig. Nú veit ég það, að ég get farið átta lotur án þess að fá of mikinn undirbúning.Ég þarf að bæta ýmislegt og það er það góða við þetta. Ég þarf að bæta tækni, tímasetningar og fjarlægðina,“

Frammistaða íslensku hnefaleikadrottningarinnar vakti eðlilega mikla athygli í Noregi þar sem flestir bjuggust við því að Thanderz myndi vinna auðveldlega.

„Ég sá það að ég sjokkeraði þau svolítið. Hún var búin að vera í stífum æfingabúðum því hún átti að verja Evrópumeistaratitilinn, en það breyttist með viku fyrirvara. Þau sögðu ekki mikið þegar að ég kom og þakkaði þeim fyrir. Þau voru hissa, en almennileg,“ segir hún og hlær.

Valgerður þarf nú að taka því rólega í nokkra daga en hefur svo æfingar á nýju í næstu viku. Hún býst við að berjast nokkrum sinnum til viðbótar á árinu, en á hún von á öðrum titilbardaga? „Vonandi bara snemma á næsta ári,“ segir Valgerður Guðsteinsdóttir.

Alla fréttina úr Sportpakkanum á Stöð 2 má sjá hér að ofan.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×