Innlent

Fleiri upplifa einmanaleika og óhamingju

Höskuldur Kári Schram skrifar
Vísir/Hanna
Andlegri heilsu ungs fólks á Íslandi hefur hrakað á undanförnum árum og sífellt fleiri upplifa einmanaleika og óhamingju. Verkefnastjóri hjá Landlækni segir að aukin notkun samfélagmiðla geti skýrt þetta að vissu leyti en þar megi oft finna glansmyndir sem búi til óraunhæfar væntingar hjá ungu fólki.

Embætti Landlæknis hefur á síðustu fjórum árum kannað andlega heilsu Íslendinga þar sem meðal annars er horft til hamingju, streitu, svefns og einmanaleika.

Tæplega þrír af hverjum fjórum meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða og hefur þetta farið versnandi frá árinu 2014.

„Mest sláandi er að sjá þennan mun á aldursópunum. Hvernig unga fólkið er mun verr sett varðandi flesta þætti sem snerta andlega líðan sem við erum að mæla,“ segir Sigrún Daníelsdóttir verkefnastjóri geðræktar hjá embætti Landlæknis.

Ungar konur finna þannig mest fyrir streitu og hamingja er minnst meðal ungra karla. Sífellt fleiri upplifa einmanaleika.

„Við erum að sjá sláandi tölur varðandi einmanaleika. Þessi hópur er mest einmana af þeim aldurshópum sem við erum að skoða og það er eitthvað sem við þurfum virkilega að skoða nánar,“ segir Sigrún.

Hún segir erfitt að benda á eina skýringu fyrir þessari þróun en menn séu meðal annars að horfa til þeirra samfélagsbreytinga sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og aukinnar notkunar á samfélagsmiðum. Hún segir mögulegt að samskiptum hafi hrakað og að ungt fólk meti eigið líf út frá glansmyndum sem aðrir setja á samfélagsmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×