Innlent

Milt í veðri næstu daga: „Verður kannski svona vorfílingur á meðan“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður sólríkt víða á landinu í dag og ef til vill fer hitastigið upp í tveggja stafa tölu.
Það verður sólríkt víða á landinu í dag og ef til vill fer hitastigið upp í tveggja stafa tölu. Vísir/Ernir
Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að vorið sé kannski ekki alveg komið þrátt fyrir að nú sé nokkuð hlýtt og milt í veðri. Líkur eru á hitinn fari jafnvel upp í tíu til ellefu gráður sunnan- og suðvestanlands.

„Það er nú ekki útilokað að það fari í kalda norðanátt. Það er bara mars og apríl allur eftir þannig að maður veit aldrei með það. En það er svona fremur milt næstu daga og það verður kannski svona einhver vorfílingur á meðan það varir,“ segir Hrafn í samtali við Vísi.

Aðspurður hvort það verði hlýtt á öllu landinu segir Hrafn að það verði yfirleitt ágætis hitastig í flestum landshlutum.

 „Frá svona fjórum, fimm gráðum upp í tíu, ellefu gráður sunnan- og suðvestanlands í dag. Það eru svo kannski aðeins minni líkur á því á morgun þó að það séu alltaf líkur á að það slæðist tveggja stafa tölur syðst allavega,“ segir Hrafn.

Hrafn segir að hlýjasti dagurinn í bili sé í dag en síðan verði svalara eftir það þó að víða verði hitastigið á bilinu sex til átta gráður. Síðan megi alltaf búast við næturfrosti áfram, að minnsta kosti fyrir norðan.

Veðurhorfur á landinu í dag og næstu daga:

Austan og suðaustan 8-18 m/s, hvassast syðst. Rigning SA-lands, en annars úrkomulítið og víða bjart veður fyrir norðan. Heldur hægari á morgun og rigning með köflum S-til en áfram bjart N-til. Hiti 3 til 10 stig, en víða næturfrost í innsveitum.

Á sunnudag:

Suðlæg átt, 8-15 m/s og lítilsháttar rigning, hvassast á norðanverðu Snæfellsnesi, en hægari og bjart NA-til. Hiti 2 til 8 stig, en vægt næturfrost í innsveitum.

Á mánudag:

Suðlæg átt, 5-13 m/s, skýjað með köflum og þurrt að kalla, en bjart N- og A-lands. Heldur svalara og víða næturfrost inn til landsins.

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt, 5-13, hvassast við SV-ströndina. Dálítil rigning S- og V-lands, en áfram bjart NA-til. Hiti 1 til 7 stig.

Á miðvikudag:

Gengur í stífa austanátt með rigningu, fyrst S- og V-lands. Fremur milt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×