Körfubolti

Jón Arnór: Skagfirsk flenging

Jón Arnór var hundfúll, en auðmjúkur í kvöld.
Jón Arnór var hundfúll, en auðmjúkur í kvöld. vísir/eyþór
„Þetta var skagfirsk flening. Við gerðum ekkert að því sem við ætluðum að gera í þessum leik,” sagði Jón Arnór Stefánsson, leikmaður KR, eftir stórt tap gegn Tindastóli í Dominos-deild karla í kvöld.

„Við ætluðum að sýna smá andlegan styrk, berjast fyrir hvorn annan og treysta hvor öðrum. Við gerðum ekkert að því. Við ætluðum ekki að stressa okkur yfir úrslitum sama hvernig færi.”

„Okkur langaði að líða vel eftir leikinn og það er ekki raunin. Við erum búnir að tapa þremur leikjum í röð og þrír erfiðir tapleikir. Við þurfum að rífa okkur upp og það eru tveir leikir núna eftir sem við þurfum að taka.”

„Það er mikið verk framundan og mér líst ekkert á það hvernig við spiluðum í dag; bæði ég persónulega og liðið. Við lögðum upp með þetta að líða vel eftir leikinn og maður gerir það með því að leggja sig fram og geta horft í spegilinn og verið nokk sáttur.”

„Ég er ekki að fara horfa í neinn spegil og ég held að enginn af okkur sé að fara gera það. Við þurfum að girða okkur í brók og kafa mjög djúpt til þess að finna út úr því hvað er í gangi.”

„Við erum ekki að komast framhjá neinum. Þeir eru ekki að gera neitt nýtt. Við eigum að kunna að leysa þessa vörn hjá þeim sem er að stríða okkur. Það er lokað fyrir körfuna og við erum ekki að vinna fyrir hvorn annan.”

„Þetta er ekki að falla fyrir okkur í sókninni aðallega. Ég hef mestar áhyggjur af henni,” sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við íþróttadeild Vodafone eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×